Fékk erfðabreytt svínshjarta ígrætt

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Patrick Meinhardt

58 ára gamall karlmaður varð í vikunni annar einstaklingurinn í heiminum til að fá ígrætt erfðabreytt svínshjarta. 

Lækn­ar á há­skóla­sjúkra­hús­inu í Mary­land framkvæmdu aðgerðina en þeir framkvæmdu sömu aðgerð á David Bennett í janúar árið 2022. Bennett lést tveimur mánuðum síðar.

Í yfirlýsingu frá háskólasjúkrahúsinu sagði að hann hafi látist vegna „margra þátta, meðal annars lélegrar heilsu hans“. 

Eina raunverulega vonin

Lawrence Faucette gekkst undir aðgerðina á fimmtudag. Hann átti ekki kost á að fá ígrætt mannshjarta vegna æðasjúkdóms og innvortis blæðingarkvilla. 

Ef Faucette hefði ekki fengið nýtt hjarta voru allar líkur á að hann fengi hjartabilun. Hann er tveggja barna faðir og var áður í bandaríska sjóhernum. 

„Eina raunverulega von mín er að fá svínshjartað. Ég hef að minnsta kosti von núna og á möguleika á að lifa,“ var haft eftir Faucette fyrir aðgerðina.

Í yfirlýsingu háskólasjúkrahússins sagði að líðan Faucette væri góð og hjartað starfi „án nokkurrar aðstoðar stuðningstækja“. Hann tekur nú lyf til þess að koma í veg fyrir að líkaminn hafni nýja hjartanu.

mbl.is