Klæðist hettupeysu í kjölfar breytinga

Sumir kalla breytinguna Fetterman-regluna þar sem John Fetterman er ástæðan …
Sumir kalla breytinguna Fetterman-regluna þar sem John Fetterman er ástæðan fyrir henni. AFP/Drew Angerer

Í síðustu viku skipaði Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjaþings, þingvörðum öldungadeildarinnar að framfylgja ekki reglum um klæðaburð í þinghúsinu. Hefur þetta valdið miklu fjaðrafoki í fjölmiðlum og meðal sumra þingmanna.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa margir hverjir gefið þessari breytingu nafnið „Fetterman-reglan“ sem vísar til þess að hún hafi verið gerð fyrir öldungadeildarþingmanninn John Fetterman, sem var kjörinn í fyrra.

Fylgdi hann upphaflega hefð öldungadeildarinnar og klæddist jakkafötum. En síðan hann sneri aftur í öldungadeildina, eftir að hafa farið í tímabundið leyfi til að fara í meðferð við þunglyndi fyrr á þessu ári, hefur hann ítrekað mætt í þinghúsið klæddur stuttbuxum og hettupeysu.

Fetterman hefur allan sinn pólitíska feril verið þekktur fyrir það að klæða sig frjálslega. Það var í raun ekki fyrr en hann byrjaði í öldungadeildinni sem hann fór að klæðast jakkafötum reglulega.

Eins og sjá má á þessari mynd eru það aðeins …
Eins og sjá má á þessari mynd eru það aðeins þingmenn sem mega klæðast svona frjálslega. Ekki aðstoðarmenn. Getty Images/ Kevin Dietsch

Vilja láta framfylgja reglunum á nýjan leik

Demókratinn Joe Manchin, öldungadeildarþingmaður Vestur-Virginíu, hefur kallað saman bandalag þingmanna til að krefjast þess að breytingarnar verði afturkallaðar. Hann er ekki einn á báti því 46 öldungadeildarþingmenn Repúblikana hafa skrifað bréf til Schumer þess efnis að breytingin verði endurmetin.

Sumir þingmenn hafa gantast með breytingarnar og sagði þingmaðurinn Susan Collins við blaðamenn NBC að hún ætlaði að „klæðast bikiníi“. Hún tók svo fram við Fox News að henni væri ekki alvara, ef einhver skyldi vera í vafa um það.

Sjálfur hefur Fetterman svarað fyrir gagnrýnina og segir að það séu mikilvægari hlutir sem þingmenn eigi að ræða um en hvort að hann klæði sig eins og „sóði“.

Byggt á hefðum

Beiðnin um að framfylgja ekki reglu um klæðaburð í þinghúsinu nær aðeins yfir þingmenn því starfsmenn þingsins og aðstoðarmenn munu áfram þurfa að klæðast formlegum fatnaði. Það þýðir til dæmis að karlmenn þurfa áfram vera í jakkafötum og með bindi.

Í frétt Axios kemur þó fram að engar skriflegar reglur um klæðaburð séu að finna í reglusafni þingsins. Virðist þetta vera byggt á hefð sem þingverðir sjá um að framfylgja.

mbl.is