Skoða hvort sprengingar tengist jarðsiginu

Um tíu bílum var keyrt ofan í holu sem myndaðist …
Um tíu bílum var keyrt ofan í holu sem myndaðist við jarðsigið. AFP/Adam Ihse

Sænska lögreglan rannsakar nú hvort sprengingar á byggingarsvæði hafi orsakað jarðsig sem leiddi til þess að hraðbrautin E6 norðan við Gautaborg fór í sundur. Reynist það rétt er um að ræða gróf skemmdarverk sem valdi almenningi hættu.

Viðvörun neyðarþjónustu barst klukkan korter í tvö í nótt að staðartíma um að skemmdir hefðu orðið á stórum hluta hraðbrautarinnar. Um 14.000 fermetra svæði varð fyrir áhrifum.

Grunur er um að jarðsigið hafi orðið vegna framkvæmda sem stóðu yfir í nágrenninu, að sögn Stefan Gustafsson hjá sænsku lögreglunni. Nú verði skoðað hvort tengsl séu þar á milli, að því er sænska ríkisútvarpið greinir frá.

Hraðbrautinni lokað um óákveðinn tíma

Hraðbrautinni hefur verið lokað í báðar áttir um óákveðinn tíma. Bengt Olsson, samskiptafulltrúi hjá sænsku samgöngustofnuninni, segir þó að langur tími muni líða áður en hægt verði að opna hana á ný.

„Vinnan mun taka tíma og það er stórt umferðarsvæði sem þarf að stjórna,“ segir Olsson og bætir við að almenningur megi reikna með lengri ferðatíma fyrst um sinn.

Mynd af vettvangi.
Mynd af vettvangi. AFP/Adam Ihse

Um tíu bílum var keyrt ofan í holu sem myndaðist við jarðsigið. Þrír voru fluttir á sjúkrahús með minniháttar áverka.

Skemmdir urðu á nokkrum byggingum í nágrenninu en umfang þeirra er enn óljóst, að sögn bjorgunarsveitarmanna.

mbl.is