Tveir fórust í skógareldum

Sikiley á Ítalíu. Mynd er úr safni.
Sikiley á Ítalíu. Mynd er úr safni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tveir fórust og 700 ferðamenn voru fluttir brott í nótt vegna skógarelda á ítölsku eyjunni Sikiley.

Almannavarnir greindu frá því að 42 ára kona hefði látist eftir að hafa reynt að bjarga hestum sínum í bænum Cefalu, austur af borginni Palermo. Var hún ásamt föður sínum og bræðrum en talið er að hún hafi villst af leið vegna mikils reyks og runnið ofan í gil.

Þá lést 68 ára gamall maður sem flúði brennandi heimili sitt í Palermo.

700 hótelgestir fluttir brott

Um það bil 700 gestir hótelsins Costa Verde nálægt Cefalu voru fluttir í íþróttahús á svæðinu þegar eldarnir nálguðust. Þeir sneru aftur á hótelið um tvöleytið í nótt þegar hættan var yfirstaðin.

Nóttin var annasöm hjá slökkviliðsmönnum í norðurhluta Sikileyjar. Rigningu er þó spáð á eyjunni síðar í dag.

mbl.is