„Bíllinn bara flaug“

Aurskriða féll á hraðbrautina E6 norðan við Gautaborg og olli …
Aurskriða féll á hraðbrautina E6 norðan við Gautaborg og olli gríðarlegum skemmdum. AFP

„Bíllinn bara flaug,“ segir Marko Mijatovic í samtali við sænska ríkisútvarpið, en hann var á leið heim af veitingastað sínum í Svíþjóð á föstudagskvöld þegar hann beygði inn á hraðbrautina E6.

Aurskriða féll á hraðbrautina E6 norðan við Gautaborg á milli klukkan eitt og tvö aðfaranótt laugardags og olli gríðarlegum skemmdum.

Þegar Mijatovic beygði inn á brautina vissi hann ekki hvað beið hans. Hann lýsir því hvernig allt hafi orðið kolsvart.

Ýtti á hurðina þar til hún losnaði

„Ég reyndi að komast út en það gekk ekki í fyrstu svo ég panikkaði aðeins. Svo ýtti ég fast á hurðina þar til hún losnaði.“

Þegar Mijatovic steig út úr bílnum í myrkrinu var allt í leðju. Hann hafði ekið beint inn á svæðið þar sem aurskriðan féll á veginn.

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AFP

Vaknaði á miklu dýpi

Pólski vöruflutningabílstjórinn Piotr Dietula lagði sig í bílnum sínum nálægt hraðbrautinni á föstudagskvöld. Hann vaknaði eftir að skriðan hafði fallið og sat bíllinn fastur á miklu dýpi.

„Það var leðja upp að rúðum bílsins,“ segir Dietula við sænska ríkisútvarpið.

Hann hafði lagt bíl sínum við bensínstöð og stefndi að því að ferðast næsta dag. Það var ekki fyrr en hann vaknaði morguninn eftir sem hann tók eftir því hvað hafði gerst.

„Ég var skjálfandi,“ segir Dietula, en hann komst að lokum út um glugga bílsins.

mbl.is