Hylki með sýni úr smástirni á leið til jarðar

Tölvuteikning sem sýnir hvernig Osiris-Rex nálgast Bennu.
Tölvuteikning sem sýnir hvernig Osiris-Rex nálgast Bennu. AFP

Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) býr sig nú undir lendingu geimhylkis sem ber sýni af yfirborði smástirnisins Bennu.

Osiris-Rex geimfarið fer fram hjá jörðinni í dag með sýnið eftir sjö ára könnunarleiðangur. Hylki með sýni af yfirborði smástirnisins lendir í eyðimörk í Utah-ríki í dag, klukkan þrjú að íslenskum tíma.

Vísindamenn binda vonir við að sýnið leiði í ljós nýjar upplýsingar um myndun sólkerfisins fyrir 4,5 milljörðum ára og auki skilning á því hvernig líf kviknaði á jörðinni.

Búa sig undir allar aðstæður

Geimfarið sleppir hylkinu í rúmlega 108 þúsund kílómetra hæð sem fer á fleygiferð gegnum lofthjúpinn. Treyst er á að tvær fallhlífar mýki lendinguna í eyðimörkinni.

„Við höfum eytt óhóflega miklum tíma í búa okkur undir allar aðstæður, allt sem gæti farið úrskeiðis,“ sagði Dante Lauretta, yfirmaður verkefnisins við BBC.

Osiris-Rex fór frá jörðinni árið 2016 til að rannsaka smástirnið Bennu. Takist lending hylkisins heldur geimfarið á annað smástirni í geimnum sem kallast Apophis.

mbl.is
Loka