Krókódíll með konu í kjaftinum

Lögreglumenn skutu krókódílinn til bana. Mynd er úr safni.
Lögreglumenn skutu krókódílinn til bana. Mynd er úr safni. AFP

Flórídamaðurinn James Bullard varð vitni að óhugnanlegu atviki er hann sá fjögurra metra langan krókódíl í læk með lík konu í kjaftinum. Gerðist atvikið í Largo í Flórída-ríki í Bandaríkjunum.

„Ég kastaði steini í krókódílinn, bara til að sjá hvort þetta væri alvöru krókódíll,“ sagði Bullard í viðtali við fréttastofuna WFLA-TV á föstudaginn.

„Krókódíllinn hélt fast í líkið, hélt í neðri hluta búksins, og dró líkið með sér undir vatnið.“

Krókódíllinn hóf að draga pallbílinn

Bullard hljóp á slökkvistöð í nágrenninu og tilkynnti atvikið. Lögreglan mætti skömmu síðar og banaði krókódílnum, þó ekki án mótstöðu dýrsins.

„Þeir settu reipi um hálsinn á honum og tengdu reipið við krók á pallbíl. Þeir voru að draga hann inn en krókódíllinn byrjaði að draga bílinn í vatnið,“ sagði Bullard er hann lýsti aðgerð lögreglumannanna.

Eftir stutta stund náðu lögreglumenn svo valdi á krókódílnum og skutu hann til bana. Lögreglan hefur borið kennsl á lík konunar og var hún 41 árs gömul.

Verið er að rannsaka dánarorsök en ekki er vitað hvort krókódíllinn hafi orðið henni að bana eða fundið lík hennar.

mbl.is