Lögreglumenn í Lundúnum skila vopnum sínum

Lundúnalögreglan.
Lundúnalögreglan. AFP/Justin Tallis

Varnarmálaráðuneyti Bretlands hefur boðið lögreglunni í Lundúnum liðsauka vopnaðra hermanna eftir að fjöldi lögreglumanna skiluðu skotvopnaleyfum sínum. 

Samkvæmt heimildum BBC hafa fleiri en 100 lögreglumenn skilað skotvopnaleyfum sínum.

Aðgerðir lögreglumannanna koma í kjölfar þess að lögreglumaður var ákærður fyrir morðið á Chris Kaba. 

Kaba var 24 ára gamall er hann var skotinn til bana í Suður-Lundúnum á síðasta ári. Hann var óvopnaður og leiddi dauði hans til fjölda mótmæla. 

Lögreglumaðurinn kom fram fyrir dómstól á fimmtudag. 

Endurskoða vopnaða löggæslu

Í yfirlýsingu frá Lundúnalögreglunni sagði að nokkrir lögreglumenn hefðu „áhyggjur“ af því hvaða áhrif ákæran hefði á „störf þeirra“. 

Varnarmálaráðuneytinu barst beiðni frá innanríkisráðuneytinu um aðstoð frá hernum ef þess verður þörf. 

Slík beiðni er ekki einsdæmi en herinn aðstoðaði meðal annars heilbrigðisstarfsfólk í heimfaraldrinum og á síðasta ári er landamæraverðir og sjúkraflutningamenn voru í verkfalli. 

Lundúnalögreglan sagði í yfirlýsingunni að hermennirnir yrðu einungis notaðir við sérstakar aðstæður. 

Suella Braverman innanríkisráðherra hefur kallað eftir endurskoðun á vopnaðri löggæslu.

mbl.is
Loka