Franski rapparinn MHD hefur verið sakfelldur fyrir morðið á ungum manni, en bifreið rapparans var ekið á manninn og hann svo stunginn til bana í París árið 2018. Hlaut MHD 12 ára fangelsisvist.
Fimm aðrir sakborningar voru einnig sakfelldir fyrir aðild að morðinu og hlutu á milli 10 til 18 ára fangelsisdóma. Á annan tug ungmenna tóku þátt í átökum milli tveggja gengja kvöldið 6. júlí, er maðurinn var myrtur. Átökin voru á milli gengja úr 19. og 10. hverfi.
Þrír menn voru sýknaðir af sök um aðild að morðinu.
MHD, sem heitir réttu nafni Mohamed Sylla og er 24 ára gamall Parísarbúi, skaust upp á stjörnuhimininn árið 2015 en á þeim tíma starfaði hann sem pítsusendill í höfuðborginni. Tónlist hans er eins konar blanda af tónlist frá Vestur-Afríku og bandarísku hip-hopi.
Hann var ákærður árið 2019 og var þá í eitt og hálft ár í gæsluvarðhaldi. Hann var hins vegar látinn laus á meðan á rannsókn stóð og nýtti tíma sinn í að gefa út nýja plötu.
Í lokaræðu sinni fyrir dómi, áður en hann kvað upp úrskurð eftir þriggja vikna málsmeðferð, hélt rapparinn aftur fram sakleysi sínu.
„Frá upphafi hef ég haldið fram sakleysi mínu í þessu máli og ég mun halda áfram að halda fram sakleysi mínu,“ sagði hann.
Vörn hans byggði að miklu leyti á því að hann hefði ekki verið á staðnum er morðið var framið. Myndband af vettvangi sýnir þó bíl í hans eigu keyra yfir manninn sem var myrtur og vitni lýstu því að hafa séð hann á staðnum.
Bíllinn var svo fundinn daginn eftir morðið en þá var búið að kveikja í honum.