Rappari sakfelldur fyrir morð

Rapparinn MHD hefur verið dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir …
Rapparinn MHD hefur verið dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir að myrða ungan mann árið 2018. AFP/Thomas Samson

Franski rapparinn MHD hef­ur verið sakfelldur fyr­ir morðið á ungum manni, en bifreið rapparans var ekið á manninn og hann svo stung­inn til bana í Par­ís árið 2018. Hlaut MHD 12 ára fangelsisvist.

Fimm aðrir sakborningar voru einnig sakfelldir fyrir aðild að morðinu og hlutu á milli 10 til 18 ára fangelsisdóma. Á ann­an tug ung­menna tóku þátt í átök­um milli tveggja gengja kvöldið 6. júlí, er maðurinn var myrtur. Átökin voru á milli gengja úr 19. og 10. hverfi.

Þrír menn voru sýknaðir af sök um aðild að morðinu.

MHD, sem heit­ir réttu nafni Mohamed Sylla og er 24 ára gam­all Par­ís­ar­búi, skaust upp á stjörnu­him­in­inn árið 2015 en á þeim tíma starfaði hann sem pítsusendill í höfuðborg­inni. Tónlist hans er eins kon­ar blanda af tónlist frá Vest­ur-Afr­íku og banda­rísku hip-hopi.

Gaf út nýja plötu á meðan rannsókn stóð yfir

Hann var ákærður árið 2019 og var þá í eitt og hálft ár í gæsluvarðhaldi. Hann var hins vegar látinn laus á meðan á rannsókn stóð og nýtti tíma sinn í að gefa út nýja plötu.

Í lokaræðu sinni fyrir dómi, áður en hann kvað upp úrskurð eftir þriggja vikna málsmeðferð, hélt rapparinn aftur fram sakleysi sínu.

„Frá upphafi hef ég haldið fram sakleysi mínu í þessu máli og ég mun halda áfram að halda fram sakleysi mínu,“ sagði hann.

Vörn hans byggði að miklu leyti á því að hann hefði ekki verið á staðnum er morðið var framið. Myndband af vettvangi sýnir þó bíl í hans eigu keyra yfir manninn sem var myrtur og vitni lýstu því að hafa séð hann á staðnum.

Bíllinn var svo fundinn daginn eftir morðið en þá var búið að kveikja í honum.

mbl.is