Áform Lego urðu að engu

Hinir sívinsælu Lego-kubbar verða ekki búnir til úr endurunnum plastflöskum …
Hinir sívinsælu Lego-kubbar verða ekki búnir til úr endurunnum plastflöskum eins og áform gerðu ráð fyrir. AFP/Jonathan Nackstrand

Danski leikfangaframleiðandinn Lego hefur fallið frá áformum sínum um að vinna kubba sína úr endurunnum plastflöskum. Voru fyrirhuguð áform gerð í tilraun til þess að minnka kolefnisfótspor fyrirtækisins. 

Segir fyrirtækið nú að rannsóknir þess og tilraunir sýni að kolefnisfótspor Lego muni ekki minnka þó að kubbarnir verði gerðir úr endurunnum plastflöskum.

Leita að efni sem endist

Lego greindi frá því árið 2021 að árið 2023 ætlaði fyrirtækið sér að vera hætt að framleiða Lego-kubba úr hráolíu. 

Í dag eru flestar tegundir kubba frá Lego búnar til úr plasti sem unnið er úr hráolíu.  

Lego hefur líkt og fleiri stórfyrirtæki unni að því að verða umhverfisvænna en stærsta áskorunin er að finna efni sem endist í margar kynslóðir. 

Meiri orka notuð í framleiðsluferlinu

Árið 2021 sagðist fyrirtækið hafa hannað kubba úr endurunnum plastflöskum auk nokkurra aukaefna. Vonir stóðu til að þessar tilraunir gætu útrýmt kubbum sem unnir eru úr hráolíu. 

Eftir tveggja ára rannsóknir hefur hins vegar komið í ljós að þessir nýju kubbar eru ekki umhverfisvænni. Ástæðan er fleiri skref í framleiðslunni sem valda því að nota þarf meiri orku í að búa þá til. 

Af þeim ástæðum var fallið frá áformunum. 

Engar töfralausnir eru í sjónmáli, að sögn forstjórans Niels Christiansen. „Við erum búin að prófa hundruð efna. Það er bara ekki hægt að finna efni eins og þetta,“ sagði hann við Financial Times

mbl.is