Réttarhöld hófust í Frakklandi í dag gegn manni sem grunaður er um að hafa verið vitorðsmaður mannsins sem myrti hjón í úthverfi Parísar, fyrir framan barnið þeirra, árið 2016.
Maðurinn sem er 30 ára gamall heitir Mohamed Lamine Abrouz. Hann er sakaður um aðild að morðinu á opinberum starfsmönnum, hryðjuverkasamsæmri og hlutdeild í ólöglegu farbanni, með hámarksrefsingu í lífstíðarfangelsi.
Íklæddur hvítum stuttermabol, með sítt hár bundið aftur og skegg, staðfesti hann nafn sitt í troðfullum réttarsal áður en framburður stefnenda hófst.
Hjónin Jean-Baptiste Salvaing, 42 ára og eiginkona hans Jessica Schneider, 36 ára, sem bæði störfuðu sem lögregluþjónar voru stungin til bana á heimili sínu í Magnanville, sem er norðvestur af París.
Maðurinn hefur haldið fram sakleysi sínu síðan hann var ákærður árið 2017.
Hann segist hafa verið í bænum nóttina sem árásin var gerð, en um var að ræða fyrsta manndrápið í Frakklandi þar sem lögreglumenn, sem ekki voru á vakt, eru myrtir.
Banamaðurinn, hinn 25 ára gamli Larossi Abballa, var skotinn til bana þegar viðbragðsaðili réðst inn í hús fjölskyldunnar til þess að bjarga þriggja ára barni hjónanna, en Abballa hélt barninu í gíslingu og það varð því vitni að morðunum.
Abballa var fylgismaður jihadista-hóps Íslamska ríkisins.
Saksóknarar halda því fram að Abrouz hafi verið sá sem benti Abballa á hjónin sem skotmörk. Hann er jafnframt sagður hafa farið með Abballa inn á heimili hjónanna til að bera kennsl á myndir af þeim, sem geymdar voru í tölvu hjónanna.
Á heimilinu fundust DNA-sýni úr Abrouz, en verjendur hans benda á að engin önnur ummerki hafi fundist á vettvangi glæpsins um veru hans. Verjendur hans halda því jafnframt fram að Abballa hafi einn verið undir eftirliti lögreglu vegna sakfellingar fyrir samsæri um að undirbúa hryðjuverkaárás.
Þeir sem rannsakað hafa málið halda því þó fram að Abrouz og Abballa hafi báðir verið drifnir áfram að hugmyndafræði jihad.
Rannsakendur komust jafnframt að því að Abrouz hafði verið í sambandi við unga konu, að nafni Sara Hervouet, í gegnum Abballa, en konan hefur verið dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að hafa stungið óeinkennisklæddan lögreglumann árið 2016.
Abrouz hefur þegar verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa ekki tilkynnt um hryðjuverkaglæp, eða tilraun til bílasprengjuárásar nálægt Notre-Dame-dómkirkjunni í miðborg Parísar.