Norður-Kórea opnar landamærin fyrir útlendinga

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu munu heimila erlendum ríkisborgurum að koma til landsins á nýjan leik frá og með deginum í dag.

Frá þessu greinir kínverski ríkisfjölmiðillinn en útlendingar sem koma til landsins þurfa að fara í tveggja daga sóttkví. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu hafa hins vegar engar fréttir flutt af opnum landamæranna.

Norður-Kórea hefur að mestu leyti verið lokuð frá umheiminum síðan snemma árs 2020. Þá var landamærum landsins lokað til að bregðast við Covid-19 heimsfaraldrinum þar sem jafnvel N-Kóreumönnum var meinað að koma inn í landið. 

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, gaf tóninn fyrr í þessum mánuði en þá fór hann í opinbera heimsókn til Rússlands og hitti þar meðal annars Vladimír Pútín, Rússlandsforseta. Það var í fyrsta skipti frá því heimsfaraldurinn skall á sem Kim yfirgaf land sitt. Þá ákvað hann að senda íþróttamenn til að taka þátt í Asíuleikunum, sem fram fara í borginni Hangzhou í austurhluta Kína.

mbl.is