Lögreglan í Bretlandi segist rannsaka ásakanir um kynferðisbrot sem „eru ekki nýlegar“. Þetta kom fram í máli rannsóknarlögreglunnar Andy Furphy í kjölfar fregna um ásakanir á hendur skemmtikraftinum Russell Brand.
Sagði hann að lögreglunni hefði borist fjölda ásakana um kynferðisbrot í Lundúnum sem og annars staðar í landinu eftir að fjallað var um mál Brands í fjölmiðlum. BBC greinir frá.
Sunday Times, Times og Channel 4 fjölluðu um ásakanir um kynferðisbrot á hendur skemmtikraftinum og leikaranum á dögunum. Stigu fjórar konur fram og sögðu hann hafa brotið á sér kynferðislega.
„Við höldum áfram að hvetja alla sem telja að brotið hafi verið á sér kynferðislega, sama hversu langt er síðan, að hafa samband við okkur,“ sagði Furphy.
Hann sagðist skilja að það gæti verið erfitt skref að stíga. „Ég vil árétta að við erum með sérstakt teymi sem veitir ráðleggingar og stuðning,“ sagði Furphy.