Rússar hafa kennt stjórnvöldum í Kósovó um mannskæð átök milli yfirvalda og vopnaðra manna nærri landamærum Serbíu.
Þeir vara við því að blóðsúthellingar á svæðinu geti farið úr böndunum.
„Það er enginn vafi á því að blóðsúthellingarnar eru bein afleiðing af leið svokallaðs forsætisráðherra, Albin Kurti, sem hvatt hefur til átaka,“ er haft eftir rússneska utanríkisráðuneytinu.
Ráðuneytið varaði jafnframt við því að tilraunir til að stigmagna ástandið gætu leitt til þess að allt Balkanskagasvæðið myndi líða fyrir það.