Bandarísk yfirvöld höfða mál gegn Amazon

Lögð hefur verið fram kæra á hendur Amazon fyrir að …
Lögð hefur verið fram kæra á hendur Amazon fyrir að reka ólöglega einokunarverslun. AFP

Bandaríska viðskiptaeftirlitið  hefur höfðað mál á hendur bandaríska stórfyrirtækinu Amazon. 

Fyrirtækið er sakað um að reka ólöglega einokunarstarfsemi með því að halda keppinautum niðri og beita öðrum seljendum þvingunum. 

„Kvörtun okkar lýsir því hvernig Amazon hefur beitt refsi-og þvingunaraðgerðum til þess að viðhalda einokun sinni með ólöglegum hætti,“ segir Lina Khan, formanni bandaríska viðskiptaeftirlitsins. 

Sautján önnur ríki taka þátt í málshöfðuninni. Því er haldið fram að Amazon hafi brotið gegn samkeppnislögum á tvennan hátt, sem snýr að svokölluðu „markaðstorgi“ þess sem tengir aðra söluaðila við kaupendur í gegnum vefsíðuna. 

Amazon er t.d. sakað um að refsa fyrirtækjum sem nota þeirra vefsvæði til að selja hluti annars staðar á lægra verði. Refsingin er fólgin í því að vörur þeirra verði lítt sýnilegar á vef Amazon. 

Þá er Amazon sakað um að þvinga söluaðila til að skrifa undir og greiða fyrir skipulagsþjónustu fyrirtækisins, sem er mjög dýr, í því skyni að þeirra vörur verði sýnilegri svokölluðum Prime-viðskiptavinum sem eru þeir notendur sem stunda mest viðskipti á Amazon. 

„Amazon er einokunarstarfsemi sem beitir sínu afli til að hækka verð gagnvart bandarískum neytendum og rukka mörg hundruð þúsund seljendur um gríðarháar upphæðir,“ segir John Newman, aðstoðarforstjóri á samkeppnissviði bandaríska viðskiptaeftirlitsins. 

Amazon vísar öllum þessum ásökunum á bug. 

mbl.is