Ekki fleiri verið frá vinnu sökum veikinda í 15 ár

Það er flestum nauðsynlegt að vinna en heilsan verður að …
Það er flestum nauðsynlegt að vinna en heilsan verður að vera í lagi. AFP

Aldrei hafa jafn margir verið frá vinnu sökum veikinda í Bretlandi í 15 ár og er staðan verri nú en var á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. 

Fram kemur í nýrri rannsókn á vegum CIPD, sem eru samtök sem sérhæfa sig í mannauðsstjórnun, og heilbrigðisfyrirtækisins Simplyhealth að starfsfólk tók að meðaltali 7,8 veikindadaga á síðasta ári. 

Áður en heimsfaraldurinn skall á þá voru veikindagarnir að meðtali tveimur dögum færri. Núverandi tala hefur ekki verið hærri frá árinu 2008. 

„Þrátt fyrir að rannsókn okkar sýni fram á að flest fyrirtæki og stofnanir séu að einblína á velferð starfsfólks, þá er það áhyggjuefni hve margir eru fjarverandi þvert á starfsgreinar,“ segir Rachel Suff hjá CIPD.

Aukin fjarvera sökum veikinda hefur áhrif á vinnumarkaðinn þar sem staðan er nú þegar ansi þröng. Atvinnurekendur eiga margir erfitt með að ráða nýtt fólk eða halda í starfsmenn sökum skorts á vinnuafli sem gerði stöðuna erfiðari í kjölfar Covid-heimsfaraldursins og Brexit. 

Streita hefur mikil áhrif

Þá kemur fram í rannsókninni að streita hefur mikil áhrif á veikindaleyfi starfsfólks, bæði til lengri og skemmri tíma. Um 76% stjórnenda segja að streita hafi valdið því að þeir hafi verið fjarverandi sökum veikinda á síðasta ári. 

Þegar litið er á fjarverur til skamms tíma þá má rekja þær að mestu, eða í 94% tilfella, til minniháttar veikinda, eða meiðsla, í um 45% tilfella. Þá má rekja slíkar fjarverur í um 39% tilfella til andlegra veikinda að því er segir í rannsókninni sem náði til um 6,5 milljóna starfsmanna hjá 918 fyrirtækjum og stofnunum. 

Andleg veikindi er helsta ástæðan fyrir því að fólk sé fjarverandi til lengri tíma litið, eða í um 63% tilvika. Næst á eftir fylgja alvarleg veikindi á borð við heilablóðfall eða krabbamein. 

Covid hefur enn áhrif á skammtímaveikindi

Um einn þriðji fyrirtækja og stofnana segir að Covid sé ennþá ástæða þess að fólk sé frá vinnu til skamms tíma. 

Við upphaf þessa árs voru um 2,6 milljónir Breta á vinnualdri, sem er um 6,1% þjóðarinnar, frá vinnu sökum heilsubrests. Aldrei hafa jafn margir einstaklingar verið frá vinnu á sama tíma. 

Claudia Nicholls, hjá Simplyhealth, hvetur atvinnurekendur til að grípa til aðgerða til að stuðla að bættri heilsu starfsfólks. 

mbl.is