Enn ein sprengingin í Svíþjóð

Á þessu myndskeiði sem sænska ríkisútvarpið SVT birtir á vef …
Á þessu myndskeiði sem sænska ríkisútvarpið SVT birtir á vef sínum í morgun má sjá hvernig framhliðin hefur rifnað af hluta hússins. Mesta mildi þykir að íbúðirnar sem verst urðu úti voru mannlausar. Skjáskot/Myndskeið SVT

Fjölbýlishús í Ekholmen-hverfinu í sænsku borginni Linköping er stórskaðað eftir öfluga sprengingu klukkan sex í morgun að sænskum tíma, fjögur að íslenskum, og er þar komin önnur sprengingin við íbúðarhús í Svíþjóð á innan við hálfum sólarhring og sú þriðja á nokkrum dögum.

Hálfþrítug kona var flutt á sjúkrahús eftir sprenginguna og þykir mesta mildi að fleiri eru ekki sárir þar sem framhliðin rifnaði af hluta hússins, en þær íbúðir sem verst urðu úti voru mannlausar.

Ekki er lengra síðan en í gærkvöldi að þrír hlutu líkamstjón í sprengingu við hús í Stokkhólmi og fyrir rúmri viku varð enn ein sprenging sem sænska lögreglan telur að tengist væringum glæpaklíkanna Foxtrot og Dalen en þeirri fyrrnefndu stjórnar „kúrdíski refurinn“, Rawa Majid, sem um þessar mundir er búsettur í Tyrklandi.

Húsið rýmt

Sænskir fjölmiðlar hafa uppi vangaveltur um að sprengingin í morgun tengist átökunum einnig en Angelica Israelsson Silfver, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar, vill ekki staðfesta það enn sem komið er. „Við vinnum nú með málið og gerum okkur grein fyrir atburðarásinni víða um Svíþjóð síðustu vikurnar,“ segir Silfver.

Húsið í Linköping hefur nú verið rýmt og hafast íbúarnir við í íþróttahúsi í nágrenninu á meðan slökkvilið er að störfum á vettvangi. Lögregla gengur í hús í nágrenninu og ræðir við íbúa þar um hvors þeir hafi orðið einhvers varir um það leyti er sprengingin varð í morgun.

Aftonbladet

SVT

mbl.is