Grunaður um að hafa myrt sex ára dreng

Þýskir lögreglumenn að störfum.
Þýskir lögreglumenn að störfum. AFP/Daniel Karmann

Þýska lögreglan hefur handtekið unglingspilt sem er grunaður um að hafa myrt sex ára dreng sem var stunginn á leið heim frá íþróttasvæði.

Drengurinn fannst í runna í síðustu viku eftir að foreldrar hans sögðu að hann hefði ekki komið heim til sín í bænum Pragsdorf í norðurhluta Þýskalands.

Viðbragðsaðilar reyndu að endurlífga drenginn en hann lést síðar á sjúkrahúsi.

Erfðaefni fannst á hnífnum

Rannsakendur fundu hníf skammt frá vettvangi glæpsins sem talið er að hafi verið notaður við verknaðinn.

Lögreglan hefur núna tengt erfðaefni sem fannst á hnífnum við 14 ára pilt, að því er hún greindi frá í morgun.

Pilturinn hafði áður verið yfirheyrður af lögreglunni vegna þess að hann var sá síðasti sem sá drenginn á lífi. Einnig höfðu svör piltsins vakið upp grunsemdir.

Fleiri morð af svipuðum toga

Fleiri morð af svipuðum toga hafa verið framin í Þýskalandi á árinu. Fyrr í þessum mánuði kom í ljós að tvær stúlkur, 12 og 13 ára, stungu aðra skólastúlku til bana skammt frá bænum Freudenberg.

Lögreglan greindi einnig frá því fyrr í þessum mánuði að 11 ára drengur hefði myrt tíu ára stúlku í bænum Wunsiedel.

Í ágúst síðastliðnum var 15 ára piltur dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að myrða jafnaldra sinn í bænum Wunstorf.

Sakhæfi miðast við 14 ár í Þýskalandi.

mbl.is
Loka