Stórmeistarinn Hans Niemann þvertekur fyrir það að hann hafi nokkurn tíman notað titrandi kynlífstæki til að svindla í skák. Ár er síðan stórmeistarinn Magnus Carlsen sakaði hann um að hafa svindlað í skák gegn sér og fór sá orðrómur á kreik að Niemann hafi notað þráðlausar endaþarmsperlur.
Stórmeistararnir grófu svo að segja stríðsöxina undir lok síðasta mánaðar þegar Carlsen viðurkenndi að ekki væru nægar sannanir um að Niemann hefði svindlað.
Niemann settist niður með Piers Morgan á dögunum í þáttunum Piers Morgan Uncensored en þátturinn fór í loftið í gær.
„Það er rosalega niðurdrepandi að vera sakaður um að svindla eftir svona sigur,“ sagði Niemann um ásakanirnar. Sagðist hann hafa lært mikið á þessu ári, bæði um lífið og skákina.
Niemann höfðaði meiðyrðamál gegn Carlsen og fór fram á 100 milljónir bandaríkjdala. Lyktaði málum svo að Carlsen viðurkenndi að ekki væru nægar sannanir fyrir því að Niemann hefði svindlað.
Morgan, sem ekki er þekktur fyrir að tala undir rós, spurði Niemann svo hreint út um orðróminn að hann hafi notast við kynlífstæki til að svindla.
„Svo við tölum skýrt um ásakanirnar, hefurðu notað endaþarmsperlur á meðan þú keppir?“ spurði Morgan.
„Ég hef áhyggjur af því hversu forvitinn þú ert um það, þú veist, kannski hefurðu bara persónulegan áhuga, en ég get sagt þér nei. Svarið er afdráttarlaust, nei, auðvitað ekki,“ svaraði Nieman.