Sá þriðji handtekinn vegna andláts barnsins

Þrjú hafa verið handtekin í tengslum við andlát barnsins.
Þrjú hafa verið handtekin í tengslum við andlát barnsins. AFP/Spencer Platt

Lögreglan í New York hefur handtekið þriðja einstaklinginn í tengslum við andlát barns á leikskóla í borginni. Karlmaðurinn, Renny Antonio Parra Paredes, er grunaður um að hafa dreift fíkniefnum sem fundust á leikskólanum þar sem árs gamall drengur lést vegna ofskömmtunar fentanýls. 

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að hinn árs gamli Nicolas Dominici hafi látist í hvíldarherbergi á leikskólanum í Bronx-hverfi í New York-borg. Þótti sýnt að hann hefði látist vegna ofskömmtunar fentanýls. 

Við húsleit lögreglu í leikskólanum fannst mikið magn fíkniefna. 

Lögreglan í New York segir að límmiðar hafi fundist á heimili hins grunaða. Samskonar límmiðar hafi fundist á pakkningum utan um fíkniefnin á leikskólanum. 

Eigandi leikskólans og leigjandi skólans voru handteknir í síðustu viku.

mbl.is