Segir af sér eftir að hafa heiðrað nasista

Ant­hony Rota ásamt Volodimír Selenskí, en fyrrum liðsmaður nasista var …
Ant­hony Rota ásamt Volodimír Selenskí, en fyrrum liðsmaður nasista var viðstaddur heimsóknina. AFP

For­seti neðri deild­ar kanadíska þings­ins, Ant­hony Rota, hefur sagt af sér eftir að hafa heiðrað úkraínskan mann sem barðist fyrir hönd nasista, á viðburði á kanadíska þinginu í síðustu viku. 

Maðurinn, hinn 98 ára gamli Yarosla Hunka, var lýst sem hetju og stóðu þingmenn á fætur til klappa fyrir honum, en hann var viðstaddur heimsókn Úkraínuforsetans Volodimír Selenskí.

Ítrekar djúpa eftirsjá sína

Rota kvaðst ekki hafa vitað að Hunka hefði barist með nasistum og að það hefðu verið mistök að bjóða honum.

Í fyrstu hafnaði Rota ákalli um afsögn en í dag tilkynnti hann fyrir þinginu að hann myndi segja af sér embætti. „Ég ítreka djúpa eftirsjá mína,“ sagði Rota er hann ávarpaði þingið í dag.

Rota tilkynnti í dag að hann myndi segja sig frá …
Rota tilkynnti í dag að hann myndi segja sig frá embætti vegna mistakana. AFP

Sakaðir um að myrða Pólverja og gyðinga

Hunka barðist fyrir hönd nasista í sjálfboðaliðaherdeild Úkraínumanna. Liðsmenn herdeildarinnar eru sakaðir um að hafa myrt Pólverja og gyðinga, þó að deildin hafi ekki verið fundin sek um stríðsglæpi fyrir dómstóli.

Just­in Trudeau, for­sæt­is­ráðherra Kan­ada, sagði atvikið veru­lega vand­ræðal­egt fyr­ir Kan­ada á blaðamannafundi í gær.

Klukkutíma fyrir afsögn Rota sagði utanríkisráðherra landsins, Melanie Joly, mistökin óásættanleg og að hún teldi ekkert annað í stöðunni en að Rota segði af sér. 

mbl.is