Tuttugu létustu í sprengingu

Sprengingin varð í Stepanakert í gærkvöldi.
Sprengingin varð í Stepanakert í gærkvöldi. AFP

Hið minnsta tuttugu létust í bensínsprengingu í Nagorno-Karabakh í gærkvöldi. Yfir tvöhundruð særðust í sprengingunni að sögn armenskra stjórnvalda. 

Tæplega 300 voru lögð inn á sjúkrahús og er ástand margra enn alvarlegt. BBC greinir frá.

Í gær höfðu 14 þúsund flúið frá fjallahéraðinu yfir til Armeníu en mikill meirihluti íbúa í Nagorno-Karabakh eru af armenskum uppruna. Aser­ar náðu völdum í Nagorno-Karabak í síðustu viku. 

Ekki er ljóst hvað olli sprengingunni í gær en hún varð í borginni Stepanakert. 

Umboðsmaður mannréttinda í Nagorno-Karabakh, Gegham Stepanyan, skrifaði á samfélagsmiðlum að bensínsprengja hafi orðið í vöruhúsi. 

Í tilkynningu frá stjórnvöldum í fjallahéraðinu í nótt sagði að 13 lík hefðu fundist á staðnum og að sjö aðrir hefðu látist á spítala.

Fjöldi fólks hefur flúið Nagorno-Karabakh frá því Aserar náðu völdum …
Fjöldi fólks hefur flúið Nagorno-Karabakh frá því Aserar náðu völdum í héraðinu. Nagorno-Karabakh er lítið hérað í Suður-Kákasusfjöllum. AFP/Alain Jocard
mbl.is