15 ára stúlka stungin til bana í Lundúnum

Lögreglan í Lundúnum handtók sautján ára dreng í kjölfar árásarinnar.
Lögreglan í Lundúnum handtók sautján ára dreng í kjölfar árásarinnar. AFP/Justin Tallis

Fimmtán ára stúlka var stungin til bana þegar hún var á leið til skóla í Lundúnum í morgun. Sautján ára drengur var handtekinn í kjölfar árásarinnar.

Sjúkraflugvél var kölluð á vettvang í Croydon í suðurhluta Lundúna um klukkan 8.30 að staðartíma í morgun eftir að tilkynnt var um hnífstungu.

Binda enda á böl hnífaárása

Viðbragðsaðilar gerðu það sem þeir gátu til að bjarga stúlkunni, en hún var úrskurðuð látin á vettvangi fimmtíu mínútum síðar, að sögn lögreglu.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, sagðist hryggur vegna árásarinnar og hét því að vinna dag og nótt til að binda enda á böl hnífaárása í borginni sem hafa verið tíðar undanfarið.

Samkvæmt opinberum tölum voru 99 einstaklingar undir 25 ára aldri myrtir með hníf eða beittum hlut, í Englandi og Wales, á einu ári, eða frá marsmánuði á síðasta ári til mars á þessu ári.

mbl.is