„Borsalínó-maðurinn“ í haldi fyrir rán

Lögregla á vettvangi eftir ránið í Piaget 1. ágúst. Fimmmenningar …
Lögregla á vettvangi eftir ránið í Piaget 1. ágúst. Fimmmenningar eru nú í haldi lögreglu vegna málsins. AFP/Stefano Rellandini

Fimm eru í haldi lögreglu í Frakklandi, þar af einn alræmdur skartgripaþjófur, vegna ráns í skartgripaversluninni Piaget í París 1. ágúst þaðan sem ræningjarnir forðuðu sér með skartgripi og úr að verðmæti tíu til fimmtán milljónir evra, jafnvirði 1,4 til 2,2 milljarða íslenskra króna.

Þrjú hinna handteknu, tveir jakkafataklæddir karlmenn og kona í kjól, önnuðust framkvæmd ránsins og var að minnsta kosti eitt þeirra vopnað þegar þau létu til skarar skríða síðdegis ránsdaginn. Enginn varð fyrir meiðslum.

Piaget er við Rue de la Paix í miðborg Parísar þar sem finna má fjölda skartgripaverslana.

„Borsalínó-maðurinn“ alræmdur

Lögregla handtók fólkið í gær og í dag en meðal hinna handteknu er Aissa Bendjaber, 66 ára gamall maður sem fyrr í þessum mánuði hlaut tólf ára dóm fyrir að ræna aðra þekkta skartgripaverslun, Chophard, árið 2016.

Er Bendjaber, sem gengur undir viðurnefninu „Borsalínó-maðurinn“ vegna hattanotkunar sinnar, grunaður um að hafa átt þátt í nokkrum ránum þar sem ránsfengurinn er metinn á milljónir evra.

Rán eru ekki fátíð á svæðinu umhverfis Piaget-verslunina í París, í apríl rændu þremenningar á vélhjólum Bulgari-verslun þar og komust undan með skartgripi fyrir milljónir evra.

mbl.is
Loka