Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir hraðari afkolefnisvæðingu flutninga- og farþegaskipa heimsins. Verðmiðinn gæti farið yfir 100 milljarða dollara á ári.
Viðskipta- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, bendir á mikilvægi þessa skipaflota í heiminum í dag. Yfir 80 prósent alls varnings sem verslað er með eru flutt sjóleiðis.
Á sama tíma nemur útblástur skipanna næstum þremur prósentum af öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum.
Þrátt fyrir aukinn þrýsting á fyrirtæki um að draga úr kolefnisfótsporum sínum hefur útblástur frá skipum aukist um 20 prósent síðasta áratuginn.
„Við köllum eftir viðbrögðum á alþjóðavísu um að afkolefnisvæða flutninga- og farþegaskip,” sagði yfirmaður UNCTAD, Rebeca Grynspan.
Stofnunin leggur áherslu á hraða breytingu í átt að hreinna eldsneyti.