Misþyrmdi og drap tugi hunda

Adam Britton er þekktur krókódílasérfræðingur búsettur í Darwin í Ástralíu.
Adam Britton er þekktur krókódílasérfræðingur búsettur í Darwin í Ástralíu. AFP

Adam Britton, þekktur breskur krókódílasérfræðingur, hefur játað að hafa nauðgað, pyntað og drepið á fimmta tug hunda. Þá hefur hann einnig gengist við vörslu barnaníðsefnis. Sky News greinir frá. 

Mál Britton hefur vakið óhug á heimsvísu. Hann starfaði fyrir BBC og National Geographic og fékk hann meðal annars náttúrulífssérfræðinginn David Attenborough í heimsókn er hann tók upp þáttaröðina Life in Cold Blood á landareign sinni. 

Dómari varaði viðstadda við

Ákæran á hendur Britton taldi 56 ákæruliði sem fólu í sér hræðilegt dýraníð. Þá var hann einnig ákærður fyrir vörslu barnaníðsefnis.

Þegar hinn 51 árs gamli Britton fór fyrir dóm í Darwin í Ástralíu í gær játaði hann skýlaust brot sín.

Voru atriði sem snéru að málinu talin svo ógeðfelld að dómarinn varaði alla viðstadda við og gaf þeim tækifæri til þess að yfirgefa réttarsalinn áður en málið var tekið fyrir. Náði undanþágan einnig til öryggisvarða og annarra starfsmanna dómstólsins. 

Sendi eigendum gamlar myndir

Ásamt því að beita eigin gæludýr ofbeldi fór Britton á netið og leitaði að auglýsingum þar sem fólk var að láta gæludýr frá sér. Þegar fólkið hafði síðar samband við Britton til þess að forvitnast um líðan dýra sinna, sendi Britton gamlar myndir til þess að villa fyrir þeim. 

Dýrin geymdi krókódílasérfræðingurinn í gámi á landareign sinni sem hann kallaði „pyntingarklefa“. Þar tók hann myndskeið af aðförum sínum sem hann birti á netinu. Eiga pyntingar Britton að hafa leitt til dauða 39 hunda.

mbl.is