Nasistasamtök bönnuð

Nancy Faeser innanríkisráðherra segir hægriöfgahópum nú greitt enn eitt höggið.
Nancy Faeser innanríkisráðherra segir hægriöfgahópum nú greitt enn eitt höggið. AFP/Odd Andersen

Stjórnvöld í Þýskalandi bönnuðu í gær hægriöfgahreyfinguna Artgemainschaft sem fengist hefur við að innprenta börnum hugmyndafræði nasismans og var banninu fylgt eftir með húsleit lögreglu í 26 íbúðum í eigu 39 félaga hreyfingarinnar í tólf þýskum sambandsríkjum.

Artgemeinschaft telur um 150 félaga og tengist ýmsum öðrum öfgahópum lengst til hægri á pólitíska rófinu en samkvæmt þýska innanríkisráðuneytinu hefur hreyfingin fléttað trúarsetningum saman við áróður sinn til að auka honum slagkraft auk þess að beita fyrir sig bókmenntum frá valdatíma nasista til að kveikja kynþáttahatur hjá börnum.

Enn fremur rak hreyfingin bóksölu á netinu þar sem á boðstólum var lesefni í anda hugmyndafræði hennar.

Önnur samtök bönnuð í síðustu viku

Nancy Faeser innanríkisráðherra segir hægriöfgastefnu, og þeim sem enn leitist við að útbreiða hugmyndafræði nasista, greitt enn eitt höggið með banninu og að félagar Artgemeinschaft hafi leitast við að ala upp nýja andstæðinga stjórnskipulagsins með viðbjóðslegum áróðri sem beinst hafi að börnum og ungmennum.

Þýsk stjórnvöld hafa verið iðin við að banna öfgasamtök upp á síðkastið, í síðustu viku lögðu þau til dæmis bann við þýskum armi bandarísku nýnasistahreyfingarinnar Hammerskins.

Ef marka má skýrslu þýsku leyniþjónustunnar voru 38.800 virkir hægriöfgamenn í Þýskalandi í fyrra og hafði þeim þá fjölgað úr 33.900 frá árinu áður. Þeim, sem taldir eru reiðubúnir að beita ofbeldi, fjölgaði úr 13.500 í 14.000 milli þessara sömu ára.

mbl.is