Skoða að rýmka lög um þungunarrof

Siðanefnd Danmerkur hefur mælst til þess að lög er varða …
Siðanefnd Danmerkur hefur mælst til þess að lög er varða þungunarrof verði rýmkuð. Ljósmynd/Colourbox

Danska þingið ákvarðar brátt hvort heimila eigi þungunarrof fram að átjándu viku meðgöngu. Í dag er aðeins heimilt að fara í þungunarrof fram að tólftu viku.

Umræður um málið hafa spunnist á þingi eftir að siðanefnd í Danmörku birti uppfært álit er varðar takmarkanir á þungunarrofi. Leggur nefndin til að lög er lúta að því hve lengi konur eigi rétt til þungunarrofs verði rýmkuð samkvæmt danska miðlinum Politiken.

Rétturinn til þungunarrofs var lögleiddur í landinu árið 1973 eða fyrir 50 árum. 

Ísland frjálslyndast

Á Norðurlöndunum er Ísland með frjálslyndustu löggjöfina er varðar þungunarrof, en hér er heimilt að fara í þungunarrof fram til loka 22. viku.  Í Svíþjóð eru það átján vikur, en Danmörk, Finnland og Noregur miða öll við tólf vikur.

Tólfta vika meðgöngu er yfirleitt sú vika þar sem þunguð manneskja fer í fósturskanna, þar sem litningagallar og aðrir fæðingargallar geta komið í ljós. Sé þungunarrofs óskað eftir tólftu viku í Danmörku þarf að sækja um undanþágu hjá þungunarrofsráði, sem samanstendur af kvensjúkdómalækni, geðlækni og félagsráðgjafa eða lögfræðingi.

Ekki eru allir flokkar þingsins sammála um hversu lengi þungunarrof …
Ekki eru allir flokkar þingsins sammála um hversu lengi þungunarrof eigi að vera heimilt. AFP

Enhedslisten vill fylgja í fótspor Íslands

Ekki eru allir flokkar á þingi á sama máli hvað varðar álit siðanefndar, en lagabreyting verður brátt tekin fyrir á þingi. Þingflokkurinn Moderaterne, eða Hófsemisflokkurinn, eru meðfylgjandi breytingunni og telja átjándu viku vera rétt mat. 

„Við viljum gefa konum frelsi til að þurfa ekki að fara til Svíþjóðar eða Bretlands sé þeim synjað um seint þungunarrof hér. Við vitum að fóstur verður að barni eftir 22. viku en á átjándu viku er fóstrið ekki lífvænlegt,“ sagði Rosa Erikissen, sem tjáir sig einna helst um stefnu flokksins í heilbrigðismálum.

Vinstri-flokkurinn, Enhedslisten, vilja ganga skrefinu lengra og fylgja í spor Íslands með því að heimila þungunarrof fram að 22. viku, en þá er barnshafandi manneskjum yfirleitt boðið í skanna á nítjándu viku sem getur leitt í ljós alvarlega sjúkdóma og fæðingargalla. Dæmi eru til um að börn sem hafi fæðst hafa eftir 22. vikna meðgöngu lifi.

Of seint ef fóstrið þekkir raddir

Aðrir flokkar vilja halda í núverandi lög en þar á meðal eru Danski þjóðarflokkurinn, og Nýji borgaralegi-flokkurinn, Danmerkur demókratarnir og Íhaldsflokkurinn.

„Við viljum halda okkur við núverandi mörk svo því sem sé eytt, sé sem minnst mannlegt,“ segir þingmaður Íhaldsflokksins, Mette Abildgaard. 

„Á átjándu viku getur barnið þekkt raddir og laglínur. Það finnst okkur of seint.“

mbl.is

Bloggað um fréttina