Skotárás í Austur-Ósló

Skotið var á bifreið og íbúð í Austur-Ósló í gærkvöldi.
Skotið var á bifreið og íbúð í Austur-Ósló í gærkvöldi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Enginn hefur enn sem komið er verið handtekinn eftir að skotið var á bifreið og íbúð í Søndre Nordstrand í austurhluta Óslóar í Noregi seint í gærkvöldi. Var nokkrum skotum hleypt af áður en dökkri skutbifreið var ekið af vettvangi að sögn sjónarvotta.

„Við erum að leita að bifreiðinni og rannsökum málið. Vopn, sem nú er til rannsóknar, fannst einnig,“ sagði Anders Rønning, stjórnandi lögreglunnar á vettvangi, við norska ríkisútvarpið NRK í gærkvöldi.

Árásin hnitmiðuð

Enginn er sár eftir atlöguna en íbúarnir voru staddir í íbúðinni þegar skotunum var hleypt af auk þess sem fleiri voru í öðrum íbúðum hússins.

Lokaði lögregla stóru svæði umhverfis vettvanginn á meðan tæknifólk athafnaði sig þar en Rønning vettvangsstjóri sagði NRK að lögregla gengi út frá því að árásin hefði verið hnitmiðuð og ekki tilviljun hvert skotunum var beint.

Í fréttatilkynningu skrifar Per Ivar Iversen varðstjóri að lögregla telji ekki að aðrir séu í hættu en þeir sem árásinni var beint að.

NRK
Nettavisen
Dagsavisen

mbl.is