Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 reið yfir Campi Flegrei-svæðið vestur af Napólí á Ítalíu í nótt.
Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á þessu svæði í 40 ár að sögn sérfræðinga en skjálftinn olli engum slysum eða skemmdum að sögn almannavarna á svæðinu.
Skjálftinn reið yfir klukkan 3.35 í nótt að staðartíma. Upptök hans voru á aðeins um þriggja kílómetra dýpi og fannst hann víða í Napóli. Campi Flegrei er feiknastórt eldfjall þótt það sé flatt frekar en keilulaga.
„Þetta er stærsti skjálftinn undanfarin 40 ár. Það er mögulegt að það komi öflugri skjálftar á næstunni,“ sagði Mauro Di Vito, yfirmaður Jarðeðlis- og eldfjallafræðistofnunar Ítalíu, við AFP-fréttaveituna. Hann sagði fyrr í þessum mánuði að hann teldi að aukin virkni gæti stafað af auknu gasstreymi frekar en kviku, sem gerði líkur á eldgosi frekar litlar.
Hálf milljón manna býr á Campi Flegrei-svæðinu en síðast gaus þar árið 1538.