Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, neitar að taka þátt í kappræðum í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
Trump þykir samt sem áður líklegastur til sigurs í forvalinu en tæplega 60% Repúblikana segjast styðja Trump sem næsta forsetaefni flokksins, að því er segir í niðurstöðum könnunar fréttastofu NBC.
Helsti keppinautur Trumps er Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, en aðeins 16% segjast styðja hann.
„Þú veist, þau eru að sóa miklum tíma í þessar fáránlegu kappræður sem enginn horfir á,“ sagði Trump stuðningsfólki sínu í Suður-Karólínu á mánudaginn. „Síðustu kappræður þeirra fengu minnsta áhorf sögunnar.“
Í gær kom fram að Trump hefði gerst sekur um fjársvik er hann lagði ítrekað fram fölsuð gögn þar sem virði eigna hans var stórlega ofmetið, eða sem nemur um 3,6 milljörðum dala. Samsvarar misræmið um 492 milljörðum króna.
Trump þarf einnig að svara til saka í einkamáli sem dómsmálaráðherra New York-ríkis höfðaði á hendur honum. Aðalmeðferð í því máli hefst á mánudaginn.
Miðað við hvernig dómsmál og ásakanir á hendur Trump hafa haft lítil áhrif á vinsældir hans innan flokksins má ætla að það sé til lítils að vinna fyrir hann að taka þátt í kappræðunum. Aftur á móti gæti hann tapað fylgi ef hann kæmi illa út úr kappræðunum, þar sem hann yrði líklega spurður út í fjársvikin.
Í stað þess að taka þátt í kappræðunum sem haldnar verða í kvöld ætlar Trump að ávarpa fólk sem vinnur í bílaiðnaðinum í Michigan-ríki.
Demókratinn Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, heimsótti hóp verkfallsvarða í ríkinu í gær en bæði hann og Trump slást nú um atkvæði frá millistéttarfólki Michigan.
Michigan er álitið svokallað sveifluríki, eða ríki þar sem úrslit kosninganna gætu farið á annan hvorn veg.