Fyrsti kafbáturinn afhjúpaður í Taívan

Stjórnvöld í Taívan hafa afhjúpað fyrsta kafbátinn sem er smíðaður í landinu. Með gerð hans vonast þjóðin til að efla varnir sínar gagnvart Kína.

Taív­an hef­ur búið yfir sjálfs­stjórn frá borg­ara­stríðinu árið 1949 og líta Taívan­ar á landið sem full­valda ríki. Þeir hafa eig­in mynt, stjórn- og dóms­kerfi, en hafa aldrei lýst form­lega yfir sjálf­stæði. Kínverjar líta á eyjuna sem sitt landsvæði og hafa hótað því að taka yfir stjórn hennar.

Síðastliðið ár hafa þeir aukið hernaðarlegan- og pólitískan þrýsting í garð Taívans með því að láta fleiri herþotur fljúga þar í kring á sama tíma og þeir hafa einangrað eyjuna á pólitíska sviðinu.

Kafbáturinn var afhjúpaður í morgun.
Kafbáturinn var afhjúpaður í morgun. AFP/Sam Yeh

Taívönsk stjórnvöld hafa á hinn bóginn aukið útgjöld sín til hernaðarmála og eru 19 milljarðar dollara eyrnamerktir þeim á næsta ári, sem er meira en nokkru sinni fyrr. Peningarnir verða notaðir til að kaupa hergögn, mestmegnis frá helstu bandamönnum þeirra, Bandaríkjunum.

Langan tíma tók aftur á móti fyrir þjóðina að smíða sinn fyrsta kafbát. Tsai Ing-wen, forseti Taívans, hefur verið harðlega gagnrýnd af stjórnvöldum í Kína fyrir að neita að viðurkenna yfirráð þeirra yfir eyjunni. Hún setti kafbátaverkefni af stað árið 2016 með það að markmiði að smíða átta kafbáta.

AFP/Sam Yeh

Frumgerðin, sem nefnist Hai Kun á kínversku, eða Goðsöguleg sjávarvera, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í morgun í hafnarborginni Kaohsiung í suðurhluta Taívans.

„Sagan á ekki eftir að gleyma þessum degi,” sagði Tsai.

„Hér áður fyrr var það álitið ómögulegt að smíða kafbát hér heima fyrir en í dag stendur hér kafbátur sem var hannaður og smíðaður af okkar eigin fólki beint fyrir framan okkur. Okkur tókst þetta,” bætti hún við.

Gagnrýni frá Kína

Varnarmálaráðuneyti Kína gagnrýndi í morgun harðlega stefnu Taívans um að ætla að vernda sig gegn Kína með smíði kafbátsins sem „heimskulegu bulli”.

„Sama hversu mörg vopn stjórnvöld DPP [Lýðræðislega framfaraflokksins] smíða eða kaupa, þá geta þau ekki stöðvað ferlið í átt að sameiningu þjóðanna á nýjan leik,” sagði Wu Qian, talsmaður ráðuneytisins.

Tsai Ing-wen, forseti Taívans, (í miðjunni) situr fyrir á ljósmynd …
Tsai Ing-wen, forseti Taívans, (í miðjunni) situr fyrir á ljósmynd við athöfnina í morgun. AFP/Sam Yeh
mbl.is