Hann fjarstýrir sænsku óöldinni

Rawa Majid er íraskur fjölskyldufaðir sem ólst upp í Svíþjóð, …
Rawa Majid er íraskur fjölskyldufaðir sem ólst upp í Svíþjóð, rak ísbúð í Uppsala og átti í góðu samstarfi við foreldra sína. Það samstarf fólst í því að foreldrarnir földu stórfé á heimili sínu og ísbúðin snerist minnst um ís. „Kúrdíski refurinn“ stjórnar sænska glæpagenginu Foxtrot frá Tyrklandi og verður ekki framseldur, hann er kominn með tyrkneskan ríkisborgararétt. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Sænski herinn, lögreglan og ríkisstjórnin munu setjast á rökstóla á morgun og ráða ráðum sínum um hverjar leiðir muni best henta til að knýja til kyrrðar þá skálmöld er geisað hefur linnulítið í Svíþjóð síðustu vikur – og mun lengur ef allt er talið til.

Þetta tilkynnti Ulf Kristersson forsætisráðherra er hann ávarpaði þjóðina í kvöld á tímum sem taldir eru þeir háskalegustu þar í landi síðan árið 1945. Sprengingar og skotárásir hafa verið nær daglegt brauð í höfuðborginni Stokkhólmi og mörgum nágrannabyggðarlögum hennar í blóðugum átökum undirheima þar sem mest hefur borið á klíkunum Foxtrot og Dalen en starfsemi þeirrar fyrrnefndu má teljast óvenjuleg í ljósi þess að henni er fjarstýrt frá Tyrklandi.

Foxtrot lýtur stjórn Rawa Majid, 37 ára gamals írasks kúrda en um leið annarrar kynslóðar innflytjanda í Svíþjóð þangað sem foreldrar hans flúðu með hann barnungan, til Uppsala, nú eins nokkurra vígvalla í væringum Foxtrot, Dalen og fleiri gengja sem Majid telur ógna veldi sínu. Gengur hann almennt undir viðurnefninu „kúrdíski refurinn“ og hefur hlotið fjölda refsidóma í Svíþjóð, meðal annars fyrir smygl á sígarettum og fíkniefnum, verslun með þýfi og þjófnað.

Ulf Kristersson forsætisráðherra ávarpar sænsku þjóðina í kvöld, þjóð sem …
Ulf Kristersson forsætisráðherra ávarpar sænsku þjóðina í kvöld, þjóð sem nánast er hægt að segja að eigi í styrjöld þrátt fyrir að önnur ríki herji hvergi á. AFP/Jonathan Nackstrand

Þegar enginn hlustar

Þrátt fyrir ungan aldur hefur þegar verið skrifuð bók um kúrdíska refinn og Foxtrot, När ingen lyssnar, Þegar enginn hlustar, sem er verk blaðamannsins og rithöfundarins Diamant Salihu frá Kósovó en hann hefur ritað mjög um sænska undirheima og gengjastríð, meðal annars bókina Tills alla dör, Uns allir deyja, og hlotið hin rómuðu Raoul Wallenberg-verðlaun fyrir skrif sín.

Í Þegar enginn hlustar, en titillinn vísar til þess hvernig sænsk löggæsluyfirvöld skelltu skollaeyrunum við undirheimaþróun sem gat nánast bara endað á einn veg, lýsir Salihu kúrdíska refnum sem efnilegum nemanda í framhaldsskóla í Uppsala, ekki allt of metnaðarfullum kannski en hann var hvort sem var ekki einn í þeim hópi.

Lögreglumenn standa fyrir framan stórlaskað íbúðarhús eftir enn eitt sprengjutilræðið …
Lögreglumenn standa fyrir framan stórlaskað íbúðarhús eftir enn eitt sprengjutilræðið í morgun. Hálfþrítug kona lést í sprengingunni. AFP/Anders Wiklund

Milli annars og þriðja árs urðu einhvers konar vatnaskil. Refurinn, sem ekki hafði skorið sig sérstaklega úr fram til þess, tók að mæta í skólann í dýrum merkjafatnaði, fergður gullkeðjum og skarti ýmsu. Sonur fátækra flóttamanna frá Írak hafði skyndilega næg fjárráð og kvisaðist brátt út að hann höndlaði með ýmsan varning, smyglaðar sígarettur, þýfi og fíkniefni.

Valdi sér gengi til samstarfs

Smátt og smátt varð Majid innsti koppur í búri í undirheimum Uppsala og víðar. Aðferðafræði hans var að flytja inn stórar fíkniefnasendingar og selja efnin lægra verði en keppinautar hans. Samtímis þessu valdi hann sér önnur gengi til samstarfs, einkum í Stokkhólmi.

Ekki leið á löngu uns refurinn hafði viðað að sér sveit ungra manna, oft ósakhæfra, til að ræna fólki sem þurfti að tukta til og gera skot- og nú síðast sprengjuárásir á keppinauta eða andstæðinga aðra sem ekki létu segjast við varnaðarorð eða einfaldar barsmíðar.

Lögregla við rannsókn vettvangs þar sem ungur maður var skotinn …
Lögregla við rannsókn vettvangs þar sem ungur maður var skotinn til bana í gær. Skot- og sprengjuárásir eru bókstaflega daglegt brauð í Stokkhólmi og nágrannabyggðarlögum í miskunnarlausu stríði Foxtrot-gengis „kúrdíska refsins“ við andstæðinga sína. AFP/Pontus Lundahl

Árið 2021 vissi sænskur rannsóknarlögregluhópur, sem sinnti málefnum gengja, vel af refnum og varaði lögregluyfirvöld við því stórveldi sem hann væri að reisa í kringum sig með skotárásum, hótunum, mannránum og öðru ofbeldi. Lögreglan kaus fyrst um sinn að einbeita sér að öðrum afbrotamönnum.

Það var ekki fyrr en tæknimönnum lögreglunnar tókst að hakka sig inn í appið Encrochat sem lögreglan áttaði sig á því að einhver sem kallaði sig „foxkurdish“ þar inni var orðinn einn af umsvifamestu og háskalegustu eiturlyfjabarónum Svíþjóðar.

Sokkarnir og ísbúðin

Gegnum Encrochat og Sky ECC, annan „ósýnilegan“ samtalsvettvang afbrotamanna, lásu rannsakendur lögreglunnar eins og hverja aðra bók hvernig Majid hafði byggt upp peningaþvottaveldi þar sem hans eigin fjölskylda og vinir gegndu lykilhlutverki. Móðir hans faldi til dæmis stórfé í sokkabúntum á heimili sínu en þær tengdadóttir hennar, kona refsins, unnu í ísbúð í hans eigu í Uppsala þar sem ís reyndist gegna fullkomnu aukahlutverki.

Lögreglumenn á verði við bar í Sandviken þar sem tveir …
Lögreglumenn á verði við bar í Sandviken þar sem tveir menn voru skotnir til bana í síðustu viku. AFP/Henrik Hansson

Þau foreldrarnir voru að lokum ákærð og hlutu dóma fyrir stórfellt peningaþvætti í fyrra. Sem fyrr segir hafði refurinn einnig hlotið dóma en lét reyna á réttarstöðu sína í hverju einasta máli og var sænska ríkið í tvígang dæmt til að greiða honum bætur fyrir að hafa brotið gegn réttindum hans.

Þegar sænska lögreglan sá sitt óvænna og hugðist hafa hendur í hári kúrdíska refsins í eitt skipti fyrir öll var það of seint, hann var farinn úr landi. Majid hélt til Tyrklands og hafði fyrr en varir útvegaði sér tyrkneskan ríkisborgararétt. Framsalskröfur sænskra yfirvalda hrökkva því skammt, tyrknesk yfirvöld framselja ekki eigin ríkisborgara.

Ekkert lát er á vargöldinni í Svíþjóð en keyrt hefur …
Ekkert lát er á vargöldinni í Svíþjóð en keyrt hefur úr hófi fram í mannvígum og ógnaratburðum nú í september. AFP/Henrik Hansson

Rawa Majid stjórnar sínum mönnum með harðri hendi frá Tyrklandi, unglingum með skotvopn og sprengiefni milli handanna sem daglega eru kveikjan að stríðsfyrirsögnum í skandinavískum fjölmiðlum. Sænska refsivörslukerfið refsar fimmtán ára gömlum pilti ekki fyrir manndráp af sömu hörku og fullorðnum. Dómurinn er tvö, þrjú og í mesta lagi fjögur ár eins og fram kom í nýlegri umfjöllun sænskra fjölmiðla um barnunga hefndarsveit Foxtrot og fleiri glæpagengja er berast á banaspjót.

SVT

Aftonbladet

Dagens Nyheter (læst áskriftargrein)

Expressen

Aftenposten

Nettavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka