Kraftmikil sprenging í Úsbekistan

Höggbylgja fannst í 30 kílómetra fjarlægð frá sprengingunni.
Höggbylgja fannst í 30 kílómetra fjarlægð frá sprengingunni. Skjáskot/Twitter

Kraftmikil sprenging varð fyrir skömmu við flugvöll höfuðborgar Úsbekistan, Tashkent.

Sjónarvottar segja sprenginguna hafa orðið í vöruhúsi tollsins sem staðsett er skammt frá flugvellinum. 

Mannfall af völdum sprengingarinnar liggur ekki fyrir að svo stöddu og hafa yfirvöld í landinu ekki tjáð sig um atburðinn enn sem komið er.

Af myndefni á samfélagsmiðlum að dæma má áætla að sprengingin hafi verið afar kraftmikil og að miklar skemmdir hafi orðið á byggingum og innviðum í nágrenni. Fannst höggbylgjan frá sprengingunni í allt að 30 kílómetra fjarlægð frá vöruhúsinu.

Uppfært klukkan 01.16:

Í tilkynningu úsbeska heilbrigðisráðuneytisins segir að tilkynnt hafi verið um eld um miðja nótt í vöruskemmu og að ótilgreindur fjöldi fólks hafi verið fluttur á sjúkrahús.

„Í augnablikinu er enginn alvarlega slasaður meðal þeirra,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Það er einnig verið að hlúa að slösuðum á vettvangi og í nærliggjandi íbúðum.“



mbl.is