Mæðgur fundust myrtar

Vågsbygd er stærsti bæjarhlutinn í Kristiansand. Móðir og dóttir hennar …
Vågsbygd er stærsti bæjarhlutinn í Kristiansand. Móðir og dóttir hennar fundust myrtar í íbúð þar í gær. Ljósmynd/Wikipedia.org/Havstad112

Norska lögreglan hefur látið lýsa eftir manni alþjóðlega eftir að kona og átta ára gömul dóttir hennar fundust látnar í íbúð í Vågsbygd í Kristiansand í Suður-Noregi síðdegis í gær.

„Við getum ekki tjáð okkur um grunaða og við höfum ekki náð sambandi við hann,“ segir Cecilie Pedersen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Segir hún lögregluna enn fremur vinna út frá fleiri kenningum og tekur fram að ekki sé öruggt að sá sem liggur undir grun sé réttur maður.

Lögreglu barst tilkynning um að eitthvað alvarlegt hefði átt sér stað á öðrum tímanum eftir hádegi í gær þegar einhver hafði ætlað sér að heimsækja mæðgurnar og áttaði sig á að ekki væri allt með felldu. Í kjölfar vettvangsrannsóknar í íbúðinni beindist athygli lögreglu að skóglendi skammt frá þar sem leit stóð yfir langt fram á kvöld en Ole Strandhagen, stjórnandi á vettvangi, vildi ekki tjá sig um hvers væri leitað í skóginum.

Grimmilegt og óskiljanlegt

Var tæknideild lögreglu við störf á vettvangi í alla nótt og hefur enn ekki lokið störfum en lögregla telur ástæðu til að ætla að grunaði hafi komist úr landi enda ferjusiglingar tíðar frá Kristiansand til Danmerkur og víðar.

„Að upplifa manndráp er skelfilegt og sérstaklega þegar börn eiga í hlut,“ segir Jan Oddvar Skisland, bæjarstjóri í Kristiansand, við NRK. Áfallahjálparteymi sveitarfélagsins er að hans sögn þeim til reiðu sem á þurfa að halda.

Tore Mydland, skólastjóri Slettheia-skólans, sem stúlkan myrta gekk í, kveður nemendur og kennara með böggum hildar. „Þetta er grimmilegt og óskiljanlegt. Við áttum okkur ekki á því að þetta hafi komið fyrir einhvern úr okkar hópi,“ segir Mydland en nemendur og kennarar skólans fá nú áfallahjálp og kveður skólastjóri sérstaklega hlúð að nemendum þriðja bekkjar sem stúlkan gekk í.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

mbl.is
Loka