Stakk fimm í spænskum skóla

Spænskur lögreglubíll.
Spænskur lögreglubíll. AFP

Fjórtán ára piltur stakk þrjá kennara og tvo nemendur í skóla á Spáni í dag.

Árásin hefur vakið mikinn óhug á Spáni þar sem ofbeldisfullir glæpir eru heldur sjaldgæfir.

Pilturinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, er sagður hafa stungið fólkið ítrekað stuttu eftir að kennsla hófst við skóla í bænum Jerez de la Frontera í suðurhluta Andalúsíu.

Að sögn lögreglunnar fannst pilturinn á þriðju hæð skólans með tvo hnífa á sér.

Fjórir þeirra sem voru stungnir voru fluttir á sjúkrahús, þar á meðal kennari sem þarf að fara í augnaðgerð eftir árásina.

Þó nokkrir nemendur sögðu spænskum fjölmiðlum að pilturinn, sem er nemandi við skólann, hefði fyrst stungið bekkjarfélaga sína ásamt kennaranum sem meiddist á auga. Eftir það hljóp hann inn í aðra kennslustofu og hélt árásinni áfram.

„Hann hljóp, elti fólk og allir fóru út á leiksvæðið,” sagði einn nemandi og bætti við að hann hefði hrópað inni í kennslustofunni: „Ég ætla að drepa ykkur!”

mbl.is
Loka