Vill „rífa plásturinn af“ og reka McCarthy

Nýsamþykkt bráðabirgðafjárlög hafa ekki fallið öllum Repúblikönum í geð, sérstaklega …
Nýsamþykkt bráðabirgðafjárlög hafa ekki fallið öllum Repúblikönum í geð, sérstaklega ekki honum Matt Gaetz. AFP

Einn af harðlínumönnum Repúblikanaflokksins segist ætla að leggja fram tillögu um að bola Kevin McCarthy, samflokksmanni sínum, úr stöðu forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fyrir að semja um tímabundið fjárlagafrumvarp sem innihélt ekki tillagðan niðurskurð repúblikana.

Bráðabirgðafjár­lög voru samþykkt á Banda­ríkjaþingi í gær, aðeins nokkr­um klukku­stund­um fyr­ir upp­haf nýs fjár­laga­árs. Allt stefndi í að rík­is­stofn­un­um yrði lokað ef sátt næðist ekki á þing­inu. Bráðabirgðafjár­lög­in tryggðu starf­semi rík­is­stofn­anna í 45 daga, eða til 17. nóv­em­ber.

Í fjár­lög­un­um er ekki að finna stuðning Banda­ríkja­manna við Úkraínu­menn líkt og Joe Biden for­seti hafði kraf­ist. Biden und­ir­ritaði samt sem áður fjár­lög­in og sagðist í yf­ir­lýs­ingu full­viss um að McCart­hy myndi standa við lof­orð sitt um stuðning­inn. 

Repúblikanar höfðu þó óskað eftir enn meiri niðurskurði á ríkisútgjöldum.

Rífa plásturinn af

Það var Kevin McCart­hy, leiðtogi re­públi­kana í full­trúa­deild, sem lagði fram frum­varpið en harðlínu­flokks­menn re­públi­kana höfðu sum­ir hótað því að fjar­læga McCart­hy úr stöðu sinni sem leiðtogi þing­flokks­ins.

„Ég ætla mér að leggja fram þingsályktunartillögu sem felst í því að McCarthy fari frá embætti í vikunni,“ segir Matt Gaetz, þingmaður Repúblikanaflokksins, við bandaríska miðilinn CNN.

„Ég held að við þurfum að rífa plásturinn af.“

Segja má að Gaetz sé einn helsti forystumaður í þeim litla hópi harðlínurepúblikana sem ollu pattstöðunni í ríkistjórninni í vikunni. Harðlínuflokksmennirnir neituðu lengi að samþykkja nýtt fjárlagafrumvarp þar sem það innihélt ekki eins víðtækan niðurskurð og þeir hefðu viljað.

Hópurinn varð því afar reiður þegar McCarthy samdi um nýtt bráðabirgðafrumvarp við demókrata í gærkvöldi sem innihélt litlar breytingar á ríkisútgjöldum.

Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild.
Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild. AFP/Mandel Ngan

Demókratar gætu hjálpað McCarthy

„Ég held að við þurfum að halda áfram undir nýrri forystu sem hægt er að treysta á,“ sagði hann við CNN en bendir einnig á að demókratarnir gætu kosið gegn því að bola McCarthy úr leiðtogastöðu sinni, með tilliti til þess að hann hafi hjálpað við að koma í veg fyrri að ríkisstofnanir lokuðu.

„Eina leiðin fyrir McCarthy til að vera enn forseti fulltrúadeildar í lok vikunnar er ef demókratar hjálpa honum,“ segir hann. „Nú munu þeir örugglega gera það.“

Sumir þingmenn demókrata hafa sagst ætla að hjálpa McCarthy að halda stöðu sinni. Aftur á móti hefur Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, sagst „algjörlega“ ætla að kjósa með því að McCarthy fari úr embætti. Það sé „ekki á ábyrgð demókrata að bjarga repúblikönum frá sjálfum sér.“

Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður Demókrata í New York-fylki.
Alexandria Ocasio-Cortez, þingmaður Demókrata í New York-fylki. AFP
mbl.is