Að minnsta kosti tíu kúbverskir flóttamenn létust og á þriðja tug slösuðust þegar flutningabíll valt í suðurhluta Mexíkó nærri landamærunum að Gvatemala í gær.
Eingöngu konur voru um borð í bílnum.
Talið er að bíllinn hafi verið á leið til Bandaríkjanna og er hann gjörónýtur.
Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu, sagði sendiráð Kúbu í Mexíkó veita þeim slösuðu aðstoð.
„Við hvetjum alla sem ætla sér úr landi að nota traustar og öruggar leiðir.“
Þúsundir flóttamanna frá hinum og þessum löndum hafa ferðast í gegnum Mexíkó í ótraustum farartækjum eða gangandi í vegferð sinni til betra lífs í Bandaríkjunum.
18 fórust og rúmlega 20 slösuðust þegar rúta fór út af veginum og hrapaði ofan í gil í Nayarit í Mexíkó í ágúst og nærri þrjú þúsund flóttamenn urðu strandaglópar í óbyggðum Mexíkó um helgina þegar flutningalest með þá innanborðs stöðvaðist óvænt.