Sprenging í Oxfordskíri

Sprengingin lýsti upp næturhimininn í grennd við Oxford.
Sprengingin lýsti upp næturhimininn í grennd við Oxford. Skjáskot/Twitter

Elding olli mikilli gassprengingu í endurvinnslustöð fyrir matarúrgang í Oxfordskíri á Englandi í kvöld.

Vitni lýstu því að hafa séð eldspýjur lýsa upp næturhimininn eftir sprenginguna í Severn Trent Green-orkuverinu í Cassington sem er norður af Oxford.

Enginn slasaðist í sprengingunni en sex slökkviliðsbílar og 40 slökkviliðsmenn voru sendir á staðinn en í verksmiðjunni er framleitt lífgas úr matarúrgangi.

Talið er að einn af lífgasgeymum verksmiðjunnar hafi sprungið.

„Sem betur fer hefur enginn slasast og við erum að vinna með neyðarþjónustunni til að tryggja að staðurinn sé öruggur svo við getum metið tjónið eins fljótt og auðið er,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

mbl.is