Að minnsta kosti tíu manns fórust, þar af þrjú börn, og 60 til viðbótar slösuðust eftir að þak á kirkju hrundi niður við skírnarathöfn í norðausturhluta Mexíkó í gær.
Slysið varð í strandbænum Ciudad Madero í ríkinu Tamaulipas.
Að sögn starfsmanns Rauða krossins voru 80 manns í kirkjunni þegar þakið gaf sig.
„Því miður hefur verið staðfest að tíu eru látnir. Af þeim eru fimm konur, tveir menn og þrjú börn,” sagði Americo Villareal, ríkisstjóri Tamaulipas, við blaðamenn á staðnum.
Björgunarmenn voru í morgun að reyna að ná líki af konu úr rústunum.
Að minnsta kosti 60 manns fengu aðhlynningu vegna meiðsla, að sögn ríkisstjórans, og eru 23 enn á sjúkrahúsi. Tveir eru alvarlega slasaðir.