Tvær sprengingar urðu í Huddinge og Hässelby í útjaðri Stokkhólms, höfuðborgar Svíþjóðar, í nótt.
„Ég var vakandi og að horfa á sjónvarpið þegar ég heyrði hvell og allt húsið mitt skalf,” sagði íbúi í bænum Hässelby.
Í raðhúsinu þar sem sprengingin varð býr maður sem er sagður aðhyllast nasisma sem var handtekinn í gær, grunaður um morð í hverfinu Jordbro, að sögn Aftonbladet, en mikil óöld hefur ríkt í Svíþjóð að undanförnu.
Mikill eldur hefur logað í húsinu í morgun og hefur hann breiðst út til nærliggjandi raðhúsa.
Öll húsin hafa verið rýmd og enginn slasaðist. Sprengingin varð klukkan 6.30 að staðartíma, eða klukkan 4.30 að íslenskum tíma.
Sprengingin í Huddinge, suður af Stokkhólmi, varð klukkan 4 í nótt að staðartíma. Engan sakaði, að sögn lögreglunnar. Skemmdir eru á þaki og gluggum hússins, auk þess sem hurð fór af við sprenginguna.
Mats Eriksson hjá sænsku lögreglunni segir rannsókn standa yfir á því hvort sprengingarnar tvær tengjast.