Formleg manndrápsrannsókn hófst í dag við spænskan dómstól á mannskæðum eldsvoða sem varð þrettán manns að bana á næturklúbbi. Klúbburinn var starfræktur þrátt fyrir að hafa verið fyrirskipað að loka dyrum sínum.
Dómstóllinn í Murcia, þar sem eldurinn braust út aðfaranótt sunnudags, kveðst hafa komið rannsókninni á fót til að „skýra staðreyndirnar og ákvarða refsiábyrgð“ fyrir eldsvoðann, þann mannskæðasta sem orðið hefur á spænskum skemmtistað í þrjá áratugi.
Eldurinn kom upp rétt fyrir sólarupprás í vöruhúsi sem hýsti tvö diskótek, Teatre og Fonda Milagros, í útjaðri borgarinnar á Suðaustur-Spáni.
Lögregla og réttarrannsóknarmenn fóru inn á vettvang brunans í gær til að reyna að komast að upptökunum og hvort að hann megi rekja til vanrækslu.
Komast þarf að því hvort þeir sem ráku staðina hafi gert fullnægjandi öryggisráðstafanir, hefur dagblaðið La Opinion de Murcia eftir aðalsaksóknara borgarinnar, Jose Luis Diaz Manzanera.
Ef hægt verður að rekja dauðsföll gestanna til vanrækslu eða ónógra öryggisráðstafana þá gæti allt að níu ára fangelsisrefsing blasað við þeim sem fundnir verða ábyrgir.
Öll áhersla verður því á að afla sönnunargagna, að sögn Manzanera.
„Við verðum að fara sentimetra eftir sentimetra, og athuga allt,“ segir hann.
„Sjáum til hvernig þetta endar. Það kann að hafa orðið skammhlaup sem ekki má rekja til vanrækslu.“