Grænlenskar konur fara fram á bætur í lykkjumáli

Lykkjunni var komið fyrir í 4.500 grænlenskum unglingsstúlkum á sjöunda …
Lykkjunni var komið fyrir í 4.500 grænlenskum unglingsstúlkum á sjöunda áratugnum. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Hópur 67 grænlenskra kvenna hefur farið fram á bætur frá danska ríkinu vegna aðgerða Dana á árunum 1966 og 1970, þegar getnaðarvörninni lykkjunni var komið fyrir í um 4.500 grænlenskum unglingsstúlkum allt niður í þrettán ára aldur án þeirra vitundar eða foreldra þeirra.

Aðgerðin var liður í átaki danskra stjórn­valda til að draga úr fólks­fjölg­un á Græn­landi á sjö­unda ára­tugn­um. Á þeim tíma fædd­ust um 1.500 börn ár­lega í land­inu og um 500 af þeim voru börn ungra ein­stæðra mæðra. Fæðing­um fækkaði tölu­vert vegna átaksins og um árið 1970 fædd­ust um 900 til 1.000 börn ár­lega á Græn­landi.

Þá hafa margar kvennanna sem fengu lykkjuna á þessum tíma lýst mik­illi lík­am­legri og and­legri van­líðan sem þær hafa glímt við alla tíð. Sum­ar kvenn­anna hafa jafn­vel aldrei getað eign­ast börn.

Landsstjórn Grænlands áætlar að í lok ársins 1969 hafi allt að 35% kvenna á barneignaraldri verið komnar með lykkjuna, án þess að vita af því. Rannsóknarnefnd á vegum danskra og grænlenskra yfirvalda hefur nú það verkefni að fara ofan í saumana á þessari áætlun og þeim aðgerðum sem farið var í, en niðurstöður hennar er þó ekki að vænta fyrr en í maí árið 2025.

„Við viljum ekki bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar,“ er haft eftir Naja Lyberth á vef BBC, en hún er í forsvari fyrir hópinn sem nú hefur ákveðið að sækja bætur vegna málsins. Segir hún að konurnar sem um ræðir séu fæddar á fimmta áratug síðustu aldar og séu nú að nálgast það að verða áttræðar. Segir hún konurnar ekkert verða yngri og að þörf sé á viðbrögðum strax.

Konurnar fara hver og ein fram á 300 þúsund danskar krónur, en það nemur um sex milljónum íslenskra króna.

Segir Lyberth að dönsk stjórnvöld hafa á þessum tíma viljað stýra mannfjölda Grænlands til að geta sparað útgjöld til velferðarmála. Segir hún öruggt að stjórnvöld hafi brotið mannréttindi kvennanna og valdið þeim skaða.

mbl.is