Krefjast skýrra svara um Schengen-svindl

Margaritis Schinas, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Króatískir landamæraverðir standa vörð um …
Margaritis Schinas, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Króatískir landamæraverðir standa vörð um útjaðar Schengen-svæðisins. AFP/Samsett mynd

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kveðst enn bíða skýrra svara frá stjórnvöldum í Varsjá vegna þess sem sambandið kallar alvarlegar ásakanir um svindl með vegabréfsávísanir hjá pólskum ræðismönnum og verktökum erlendis.

Fjölmiðlar í Póllandi greindu frá því í síðasta mánuði að komið hefði verið á fót kerfi, til að deila út Schengen-áritunum til fólks frá Mið-Austurlöndum og Afríku í skiptum fyrir mútur til pólskra ræðismanna og í einhverjum tilvikum fyrirtækja í viðkomandi ríkjum.

Framkvæmdastjórn sambandsins óskaði eftir útskýringum frá Póllandi í bréfi sem sent var 19. september.

Stjórnin segir nú að í svarbréfi Varsjár hafi ýmis lykilatriði verið undanskilin.

Eykur þrýsting og ótta

„Við þurfum fullt gegnsæi til að endurbyggja traust, því að gegnsæi og traust haldast í hendur,“ sagði varaforseti framkvæmdastjórnarinnar, Margaritis Schinas, við Evrópuþingið í Strassborg í dag.

Hneykslismálið hefur valdið þrýstingi á hægriflokkinn sem fer með stjórnina í Póllandi, í aðdraganda tvísýnna þingkosninga síðar í mánuðinum, og aukið á ótta við holskeflu ólöglegra innflytjenda á Schengen-svæðið, sem telur vel á þriðja tug ríkja.

Pólsk stjórnvöld segja svindlið mögulega hafa náð yfir nokkur hundruð vegabréfaáritana og hafna fullyrðingum stjórnarandstæðinga um að fjöldinn gæti í raun numið um 250.000.

mbl.is