Að minnsta kosti þrír eru látnir og tveir særðir eftir skotárás í Siam Paragon-verslunarmiðstöðinni í Bangkok í morgun, síðdegis að staðartíma. Að sögn breska blaðsins Mirror var árásarmaðurinn handtekinn og hermir blaðið að hann sé undir lögaldri.
Á myndskeiðum sem nú fara um samfélagsmiðla má sjá fólk forða sér skelfingu lostið á hlaupum frá miðstöðinni. Fyrstu skothvellirnir eru sagðir hafa heyrst á salerni á fyrstu hæð miðstöðvarinnar og leitaði fjöldi fólks skjóls inni í verslunum en aðrir hlupu út á götu.
Aðeins örfáir daga eru nú þar til ár verður liðið frá skotárás fyrrverandi lögreglumanns á barnaheimili þar sem 24 börn og tólf fullorðnir létu lífið auk þess sem minnast má skotárásar fyrrverandi yfirmanns í hernum í verslunarmiðstöð í Korat þar sem 29 lágu í valnum.
Á samfélagsmiðilinn X skrifar notandi, sem var nærstaddur er byssumaðurinn lét til skarar skríða, að hverjum sem væri á leið í Siam Paragon væri hollast að hætta við för sína hið bráðasta. Annar birti myndskeið af skelfingu lostnu fólki á hlaupum inni í miðstöðinni og mátti heyra skothvelli á hljóðrás myndskeiðsins.
Kínverski ferðamaðurinn Liu Shiying sagði AP-fréttastofunni að viðvörunarbjöllur hefðu glumið inni í miðstöðinni og ljósin svo slokknað. Var hún enn í felum í miðstöðinni þegar hún ræddi við fréttastofuna og kvaðst vera í felum.
Mynd sem enn einn X-notandinn birti sýndi svo handjárnaðan mann liggjandi á gólfi verslunarmiðstöðvarinnar og hafði lögregla þá haft hendur í hári grunaðs árásarmanns.