„Maður hefur séð ýmislegt í gegnum árin en þetta er það hræðilegasta sem ég hef upplifað. Bara algjör martröð,“ segir Iris Hanna Bigi-Levi, íslensk kona sem hefur verið búsett í Jerúsalem í 30 ár ásamt fjölskyldu sinni, í samtali við mbl.is um innrás palestínsku hryðjuverkasamtakanna Hamas í Ísrael.
Í gegnum áranna raðir hafa íbúar í Ísrael þurft að venjast hryðjuverkum, loftvarnarsírenum og loftvarnarbyrgjum en Iris segir að ástandið sé öðruvísi núna. Hryðjuverkamenn ganga enn lausir um Ísrael og mannfallið er mikið.
„Þetta er á marga vegu öðruvísi. Það er auðvitað verið að skjóta eldflaugum á okkur en það voru líka mörg hundruð hryðjuverkamenn sem brutust inn í gegnum landamærin á jeppum og mótorhjólum.
Þeir hafa tekið mjög marga saklausa borgara gíslingu og að minnsta kosti 600 eru látnir. Þetta eru mjög stórar tölur og ástandið er bara mjög slæmt,“ segir Iris.
Hryðjuverkamenn réðust í gær á tónlistarhátíð í suðurhluta Ísrael þar sem fólk var skotið til bana og sumum rænt. Í frétt CNN kemur fram að 260 manns hafi verið aflífað á tónlistarhátíðinni. Iris kveðst þekkja suma þeirra.
„Ég þekki nokkur af þeim ungmennum sem létust þarna og særðust. Sumir vita enn ekki hver staða ættingja þeirra er í kjölfar árásarinnar þar sem það var líka tekið fólk í gíslingu.“
Hún á frændfólk í suðurhluta Ísraels, þar sem átökin voru hvað verst, en þau eru örugg í bili.
Spurð um líðan almennings í Ísrael segir hún að fólk sé orðið þreytt á hryðjuverkunum og einfaldlega hissa á því hvernig árásin átti sér stað.
„Þetta kemur almenningi alveg rosalega á óvart því þetta á ekki að geta gerst. Það hefur eitthvað virkilega misfarist. Við erum bara búin að fá nóg af þessum hryðjuverkum. Það er ekkert að gaman að fara öðru hvoru í loftvarnarbyrgi því það er verið að skjóta á okkur,“ segir hún og bætir því við að fólk í Ísrael vilji svara fyrir sig.
„Við erum í stríði og almennt álit hér í Ísrael er að við þurfum að svara fyrir okkur. Það er ekki hægt að láta þetta viðgangast,“ segir hún að lokum.