Merkið stendur þótt maðurinn falli

John F. og Jacqueline Kennedy með son sinn, John yngri, …
John F. og Jacqueline Kennedy með son sinn, John yngri, á skírnardegi hans í desember 1960. AFP/Sam Schulman

„Allur heimurinn er í dag harmi lostinn yfir falli John F. Kennedys mitt í örlagaríku starfi og baráttu, ekki aðeins í þágu bandarísku þjóðarinnar, heldur og í þjónustu alheimsfriðar og uppbyggingar í heiminum. […] En merkið stendur þótt maðurinn falli. Baráttan fyrir frelsi og mannhelgi, kynþáttajafnrétti og alheimsfriði heldur áfram. Með því að heyja þá baráttu af heilum hug minnast þjóðir hins frjálsa heims bezt hinnar föllnu frelsishetju.“

Þessi eftirmæli fékk John F. Kennedy Bandaríkjaforseti í leiðara Morgunblaðsins daginn eftir að hann var myrtur í Dallas fyrir sextíu árum. 

Umfjöllun um morðið inni í Morgunblaðinu var mjög vegleg, sérstaklega í ljósi þess að fréttin barst ekki fyrr en á sjöunda tímanum um kvöldið. Aðeins var eitt mál á forsíðunni enda strax ljóst að um sögulegan atburð væri að ræða. Næsti Bandaríkjaforseti á undan sem var myrtur var William McKinley árið 1901. Fyrirsögnin lagði sig yfir alla dálkana fimm: Kennedy myrtur. 

Lyndon B. Johnson sver embættiseið með Jacqueline Kennedy skelfingu lostna …
Lyndon B. Johnson sver embættiseið með Jacqueline Kennedy skelfingu lostna sér við hlið. AFP


Baksíðan var líka að mestu helguð ódæðinu en þar birtist hin fræga ljósmynd af Lyndon B. Johnson að sverja embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna, með ekkju Kennedys, Jacqueline, blóðuga sér við hlið. „Angist hennar má greinilega sjá á svip hennar,“ stóð í myndatexta. „Harmur um heim allan“ var fyrirsögnin á baksíðunni og undirfyrirsögnin: „Æðstu þjóðhöfðingjar og fólkið á götunni lætur í ljós hrygð sína og samúð.“ Þar var vitnað í Pál páfa VI, Friðrik Danakonung, Elísabetu Englandsdrottningu, sir Winston Churchill, Charles de Gaulle og fleiri.

Barðist fyrir jafnrétti

Á blaðsíðu 2 mátti svo lesa um viðbrögð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands, Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Emils Jónssonar utanríkisráðherra. „Þetta er hræðileg fregn,“ sagði Ásgeir. „Ungur og þróttmikill forseti, sem átti við marga erfiðleika að stríða, er myrtur. Hann barðist fyrir jafnrétti og sáttum milli þjóða og kynþátta, og miklar vonir voru bundnar við hann og hans starf. Þetta er mikill sorgaratburður en við vonum að píslarvætti hans verði til styrktar baráttu hans fyrir friði og jafnræði.“

Forsíða Morgunblaðsins 23. nóvember 1963.
Forsíða Morgunblaðsins 23. nóvember 1963.


Bjarni tók í svipaðan streng: „Allir vita, að trú Kennedys hafði næstum því kostað hann forsetadæmið. Til þess var hann samt kjörinn og hefur gegnt því með þeim ágætum, sem lengi munu í minni höfð. Morð hans sýnir, að öllum líkaði ekki jafnvel við hann. En þó mun hann hljóta mesta frægð af því, sem sennilega hefur kostað hann lífið, baráttunni fyrir jafnrétti svartra manna og hvítra.“

Nánar er fjallað um morðið á Kennedy í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka