Stærsti kjarnaofn Evrópu, Olkiluoto 3 í Olkiluoto-kjarnorkuverinu í Eurajoki í Finnlandi, sem gangsettur var í apríl, hætti að framleiða rafmagn í gærkvöldi vegna bilunar í túrbínu. Frá þessu greinir fyrirtækið TVO, sem á og rekur verið, á samfélagsmiðlinum X.
Fylgdu þær upplýsingar að bilunin væri nú til rannsóknar og ekki væri ljóst hvenær framleiðsla hæfist á nýjan leik.
Olkiluoto 3 framleiðir um 14 prósent af öllu rafmagni í Finnlandi en framleiðsla hans hjá fransk-þýska framleiðandanum Areva-Siemens dróst um árabil. Smíði ofnsins hófst 18 árum áður en hann var ræstur í vor og var það 14 árum á eftir upprunalegri áætlun um smíðina sem fór milljarða dala fram úr kostnaðaráætlun.
Framleiðslugeta Olkiluoto 3 er 1.600 megavött og er hann sem fyrr segir stærsti kjarnaofn Evrópu en úkraínska Zaporizhzhia-kjarnorkuverið, sem starfrækir sex kjarnaofna, er stærsta kjarnorkuver álfunnar.