Javier Milei, sem var í gær kjörinn forseti Argentínu, segir að taka muni 18-24 mánuði að ná tökum á verðbólgunni þar í landi en hún mælist um 140%.
Heitir hann því að ná stjórn á útgjöldum ríkisins og segir hann það forgangsmál að leggja niður seðlabankann sem hann segir bera mikla ábyrgð á verðbólgunni vegna peningaprentunar.
Milei, sem er hagfræðingur að mennt, sótti nokkur útvarpsviðtöl í morgun í kjölfar sigursins og sagðist vera með skýra sýn fyrir efnahag Argentínu.
„Reynslan segir að ef þú dregur úr umferð fjármagns í hagkerfinu í dag þá tekur það á milli 18 og 24 mánuði að eyða (verðbólgu),“ sagði hann. Um áætlanir sínar um umbætur á ríkisstjórninni sagði Milei: „Allt sem getur verið í höndum einkageirans mun vera í höndum einkageirans“, þar á meðal ríkisolíufyrirtækið YPF og ríkisfjölmiðlar.
Milei boðaði afnám ýmissa ráðuneyta í kosningabaráttu sinni, eins og sjá má hér að neðan.
Argentine’s President-Elect Javier Milei explains how he will limit the expenses of the state.
— Visegrád 24 (@visegrad24) November 20, 2023
He is about to slash public spending by getting rid of all the ministries he deems unnecessary.
🇦🇷 pic.twitter.com/FKz0bVNWt7
Milei sagðist aftur á móti fyrst ætla að leitast við að greiða niður skuldina á þeim ríkisskuldabréfum sem seðlabankinn hefur gefið út.
„Ef vandamál seðlabankans verður ekki leyst mun skuggi óðaverðbólgunnar ávallt fylgja okkur,“ sagði hann. Hann sagðist einnig ætla að beita sér fyrir því að ströng gjaldeyrishöft verði afnumin.
Milei verður með fangið fullt af verkefnum næstu árin en eins og fyrr segir er óðaverðbólga í landinu og ríkissjóður skuldar sem nemur 44 milljörðum dala. Um 40% þjóðarinnar búa við fátæktarmörk og miðstéttin er við það að þurrkast út.
Hann gaf það í skyn í viðtölum í morgun að hann hygðist fara í heimsókn til Bandaríkjanna og Ísraels áður en hann tekur við embætti 10. desember.