Boris átti erfitt með að meðtaka vísindaleg gögn

Boris Johnson átti erfitt með að meðtaka upplýsingar um vísindaleg …
Boris Johnson átti erfitt með að meðtaka upplýsingar um vísindaleg gögn sem honum voru sýnd í Covid-faraldrinum. AFP/Daniel Leal

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, átti erfitt með að meðtaka upplýsingar um vísindaleg gögn sem honum voru sýnd í Covid-faraldrinum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Sir Patrick Vallance, helsta vísindaráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar á meðan faraldrinum stóð, fyrir rannsóknarnefnd sem rannsakar viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar við faraldrinum.

Vallance skrifaði minnisblöð í gegnum faraldurinn og vitnaði í þessa minnisblöð fyrir nefndinni í dag.

Sveiflaðist fram og til baka á milli bjartsýni og svartsýni

Þann 4. maí 2020 skrifaði Vallance um fund sem hann hafði átt við Johnson um skólamál.

„Guð minn góður þetta er flókið. Líkön munu ekki bjóða upp á svör. Forsætisráðherrann er greinilega ringlaður,“ segir í blaðinu. Sama mánuðinn skrifaði hann í öðru minnisblaði:

„Forsætisráðherrann er að spyrja okkur hvort að við höfum ofgert þetta í tengslum við hve sjúkdómurinn er banvænnt. Hann sveiflast fram og til baka á milli bjartsýni og svartsýni, og nú þetta.“

Í júni 2020 skrifaði hann svo í minnisblaði að það væri erfitt að fylgjast með Johnson reyna að átta sig á tölum er varða faraldurinn.

Var í uppnámi við að sjá menn með grímur

Í öðru minnisblaði frá Vallance segir að Johnson hafi verið í uppnámi við að sjá fundarmenn á minningarathöfn, um orrustuna um Bretland í seinni heimsstyrjöldinni, bera grímur og hafa fjarlægð sín á milli. Sagði Vallance að Johnson hafi lýst þessu sem brjálæði og ógnvekjandi og að binda þyrfti enda á þetta.

Rannsókninni er stýrt af Hallet barónessu sem er fyrrverandi dómari. Búist er við því að Boris Johnson þurfi að bera vitni fyrir rannsóknarnefndinni sem og Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.

Við rannsóknarnefnd sem þessa þá er vert að nefna að enginn er fundinn sekur eða saklaus en niðurstöður eru birtar sem eru til þess ætlaðar að læra af.

mbl.is